Umsagnir við frumvarpi Ingu Sæland um bann á blóðmerahaldi hafa hrannast inn vef Alþingis á síðustu dögum, alls hafa 125 verið sendar inn og þar af 115 á aðeins nokkrum dögum.

Málið er greinilega mörgum hugleikið, ekki einungis bændum og þeim sem starfa í iðnaðinum. Aldrei áður hefur svipað frumvarp fengið svo mikla alþjóðlega athygli. Hrossaeigendur, bændur, kaupendur hormónlyfja fyrir sauðfé og svín, dýraverndarsamtök og einstaklingar frá Íslandi og víða í Evrópu hafa lagt fram umsögn.

Vilja óháða rannsókn

Dýraverndarsamband Íslands gerir skýlausa kröfu um, ef blóðtaka verður ekki bönnuð, að óháð og rýnd rannsókn verði án tafa gerð á velferð hryssa strax við næstu blóðtöku.

„Blóðtakan hefur verið stunduð hér á landi í áratugi en engar óháðar, rýndar rannsóknir eru til um blóðtöku úr fyljuðum hryssum við stóðhrossahald. DÍS fordæmir harðlega að slík blóðtaka sé stunduð án þess að fyrir liggi ítarleg rannsókn á velferð hryssanna og folalda þeirra og telur ótækt að miða við rannsóknir á öðrum dýrum en hryssunum sjálfum og við þær aðstæður sem blóðið er tekið.“

„Þau folöld sem enda ekki í sláturhúsi (vegna takmarkaðs folaldakjötsmarkaðar) eru oft á tíðum seld vegna lita inn á lífhrossamarkaðinn þar sem gallaðir gripir ganga kaupum og sölum á undirverði.“

Blóðmerahald grafi undan metnarfullu ræktunarstarfi

Stjórn Félags Tamningamanna styður bann við blóðtöku og styðst við þrjú sjónarmið í umsögn sinni, þau eru dýravernd, framtíð íslenska hestsins og ímynd Íslands.

„Folöld sem eru afrakstur blóðmeraræktunar má segja að séu „óræktuð“, enda undan allavega hrossum sem hafa verið afsett af almennum reiðhestamarkaði, t.d. vegna skapgerðargalla. Þau folöld sem enda ekki í sláturhúsi (vegna takmarkaðs folaldakjötsmarkaðar) eru oft á tíðum seld vegna lita inn á lífhrossamarkaðinn þar sem gallaðir gripir ganga kaupum og sölum á undirverði, sem grefur undan metnaðarfullu ræktunarstarfi og eðli málsins samkvæmt, hefur þau áhrif að lækka verð á ræktuðum hrossum,“ segir stjórn Félags Tamningamanna.

Foldald blóðmerar.
Mynd: AWF

Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, taka sömuleiðis undir með frumvarpinu og segjast styðja heils hugar bann við blóðmerahaldi. Landssamband Hestamannafélaga tekur undir með yfirlýsingu FEIF og styður bann við blóðmerahaldi.

Félag Hrossabænda lýsir yfir áhyggjum af því að blóðtaka úr fylfullum hryssum eigi kki samleið með því umfangsmikla samstarfi um íslenska hestinn sem á sér stað um allan heim. Félagið tekur þó ekki afgerandi stöðu með eða á móti frumvarpinu og vill bíða eftir niðurstöðum starfshóps landbúnaðarráðherra.

Gætu allt eins bannað kúa- eða sauðfjárbúskap

Félag atvinnurekenda telur Ingu Sæland ganga allt of langt í fullyrðingum og ályktunum í frumvarpi sínu, þá sérstaklega um ofbeldi gegn blóðmerum. Félagið styður ekki frumvarpið en ítrekar mikilvægi þess að huga vel að dýravelferð í landbúnaði.

„Það væri hins vegar jafnfráleitt að ætla að banna blóðmerahald eins og það leggur sig vegna þeirra tveggja tilvika, sem sýnd eru í áðurnefndri heimildarmynd, og að ætla að banna kúa- eða sauðfjárbúskap, eggjabúskap eða svínarækt, vegna afmarkaðra tilvika á einstökum bæjum, þar sem farið er illa með skepnur.“

Félag atvinnurekenda gerir athugasemd við orðalag Ingu í frumvarpi hennar um að banna blóðmerahald.

Í-ess bændur, félag bænda á Suðurlandi sem halda hryssur til blóðframleiðslu, leggjast alfarið gegn öllum greinum frumvarpsins.

„Vinnandi fólk til sveita hefur takmarkaðan aðgang að velferðarkerfunum, lítinn bótarétt vegna áunninna réttinda og því fátt sem tæki við því til framfærslu ef möguleikar til að vinna fyrir sér væru teknir burt með valdi.“

Auk Í-ess hafa ótalmargir blóðmerabændur sent inn persónulegar umsagnir að fordæma frumvarpið. Hér má nálgast allar umsagnir þeirra.

„Starfsseminn er mögulega skaðleg ímynd Íslands þó örfáir bændur hafi atvinnu af.“

Neikvæð áhrif á orðspor Íslands

Samtök ferðaþjónustunnar telja starfssemina skaðlega fyrir ímynd Íslands og hvetja atvinnuveganefnd til að skoða frumvarpið með hagsmuni hrossa og þjóðarinnar í heild.

„Allar séríslenskar reglur um atvinnustarfsemi sem er mögulega siðferðislega röng hefur ekki bara neiðkvæð áhrif á dýrin heldur einnig landið og orðspor þess í alþjóðasamfélaginu. Starfsseminn er mögulega skaðleg ímynd Íslands þó örfáir bændur hafi atvinnu af. Við þessa vinnu stjórnvalda þarf að skoða stóru myndina og mögulega fórna minni hagsmunum fyrir meiri.“