Nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um sóttvarnalög og útlendinga var samþykkt á Alþingi rétt fyrir klukkan hálf fimm í nótt. Frumvarpið var samþykkt með breytingartillögu fyrsta minnihluta velferðarnefndar.

Frumvarpið var samþykkt í atkvæðagreiðslu með 28 atkvæðum. Tveir sátu hjá og 22 greiddu ekki atkvæði. 11 þingmenn voru fjarverandi.

Frum­varpið heimilar stjórn­völdum að skylda far­þega frá skil­greindum á­hættu­svæðum í sótt­varnar­hús og banna ó­nauð­syn­leg ferða­lög frá svæðunum.

Sóttvarnalækni getur veitt undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum. Ferðamaðurinn verður að sýna fram á það í það minnsta tveimur sólarhringum fyrir komuna til landsins.

Í tillögu 1. Minni hluta velferðarnefndar eru lagðar fram breytingar á orðalagi og að ráðherra skuli fá umboð til að skilgreina hááhættusvæði samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis. Ekki var talið nægjanlegt að svæðin yrðu aðeins skilgreind út frá nýgengnisstuðli því mat ráðherra á öðrum þáttum sé einnig talið nauðsynlegt.

„Þó telur 1. minni hluti rétt að í lagaákvæðinu verði sérstaklega tiltekið að við skilgreiningu á hááhættusvæði í reglugerð megi m.a. líta til nýgengisstuðuls smita og mismunandi afbrigða veirunnar. Þá telur 1. minni hluti rétt að taka af hugsanlegan vafa um að skilgreining hááhættusvæðis í reglugerð skuli hverju sinni byggjast á tillögum sóttvarnalæknis,“ segir í greinargerð minnihlutans.