Baráttukonan Sema Erla Serdar gagnrýnir harðlega frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum sem var nýlega endurflutt fyrir Alþingi. Í þræði sem Sema birti á Twitter lýsir hún frumvarpinu sem alvarlegri aðför að grundvallarréttindum fólks og segir það vera „birtingarmynd kerfisbundins rasisma á Íslandi“ sem endurspegli stefnu stjórnvalda um að „veita sem fæstum á flótta vernd á Íslandi“.
Frumvarpið, sem ber titilinn „Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga“, var samið í dómsmálaráðuneytinu og upphaflega lagt fram á löggjafarþingi 2018-2019 en náði ekki fram að ganga og verður því endurflutt á þessu þingári.
Sema tekur til ýmis dæmi úr frumvarpinu sem að hennar sögn er mikil aðför að réttindum flóttafólks.
Frumvarpið er einfaldlega birtingarmynd kerfisbundins rasisma á Íslandi og endurspeglar stefnu stjórnvalda sem felur í sér að veita sem fæstum á flótta vernd á Íslandi. Það felur í sér mikla forréttindablindu þeirra sem skrifuðu frumvarpið og afneitun á raunveruleika flóttafólks.
— Sema Erla (@semaerla) February 13, 2022
„Um er að ræða tilraun stjórnvalda til þess að festa í sessi stefnu sem felur í sér að þrengja töluvert að fólki á flótta, skerða mannréttindi þess & fækka möguleikum fólks til að fá vernd á Íslandi. Frumvarpið er sérstök aðför að börnum & öðru fólki í sérstakl. viðkvæmri stöðu,“ er meðal þess sem Sema skrifar á Twitter.
Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að lögreglu verði heimild að skylda útlendinga í heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn „ef nauðsynlegt þykir til að tryggja framkvæmd þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið.“
Sema lýsir yfir miklum áhyggjum yfir því að lögreglan fái vald til að þvinga fólk í líkamsrannsókn. „Um er að ræða mikið inngrip í friðhelgi fólks sem stenst ekki lög, stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda,“ skrifar hún.
Rúmlega tuttugu umsagnir borist í Samráðsgátt
Fjölmargir einstaklingar og samtök hafa lagt inn umsögn um frumvarpið inn á Samráðsgátt, þar á meðal ASÍ, Rauði Krossinn, Unicef, Íslandsdeild Amnesty International og No Borders.
Í fimmtu grein frumvarpsins er lagt til að réttindi hælisleitenda til grundvallarþjónustu falli niður 30 dögum eftir að endanleg synjun um alþjóðlega nefnd er birt. Rauði krossinn lýsir yfir miklum áhyggjum með þessa tillögu og segir að hún geti skapað alvarleg vandamál.
Það er mikilvægt að mynda samfélagslega samstöðu gegn þessum breytingum á lögunum og taka höndum saman til þess að berjast gegn því að þessi ólög verði fest í sessi. Fyrsta skrefið í því er að kynna sér málið og upplýsa aðra en ekki horfa fram hjá umræðum eins og þessari.🧵lokið.
— Sema Erla (@semaerla) February 13, 2022
„Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni,“ segir í umsögn Rauða krossins.
Sema tekur í svipaðan streng og segir það vera með ólíkindum að verið sé að reyna að festa í sessi lög sem heimila það að fólk sé svipt grundvallarþjónustu.
„Að svipta fólk grundvallarþjónustu hefur mikil áhrif á vellíðan og heilsu fólks, það býr til heimilisleysi og gerir fólk í viðkvæmri stöðu enn berskjaldaðri gagnvart alls konar ofbeldi og misnotkun.“