Frétta­blaðið frum­sýnir nýtt mynd­band sem Húsvíkingar framleiddu með því markmiði að hvetja Óskarsakademíuna til að til­nefna lagið „Husa­vik - My Home Town“ úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga til Óskars­verð­launa. Ný­lega var greint frá því að lagið væri komið inn á stutt­lista Óskarsakademíunnar en Húsvíkingar lögðust á eitt við framleiðslu myndbandsins sem þeir vona að verði akademíunni hvatning til að veita laginu hina eftirsóttu tilnefningu.

Unnið af samtakamætti og leikgleði

Myndbandið er skrifað og framleitt af Húsvíkingum en höfundar þess eru þeir Örlygur Hnefill Örlygsson, Leonardo Piccione og Rafnar Orri Gunnarsson. Jenný Lára Arnórsdóttir og Kristín Lea Sigríðardóttir önnuðust leikstjórn og leikaraval.

„Þetta er sennilega í bæði fyrsta og síðasta skipti sem svo lítið samfélag ræðst í að setja af stað sína eigin Óskarsherferð, en kvikmyndaverin leggja auðvitað stórar upphæðir í sínar herferðir úti. Hér unnum við á samtakamættinum og leikgleðinni,“ segir Örlygur Hnefill en samkvæmt honum byrjaði umræðan um mögulega Óskarstilnefningu strax eftir að myndin kom út sumarið 2020.

Framleiðendur myndbandsins fylgdust náið með þeirri umræðu og þegar listinn yfir fortilnefningarnar kom út í síðasta mánuði fóru þeir á fullt í að skrifa handrit, taka upp tónlist og skipuleggja herferðina.

Rafnar Orri Gunnarsson, einn af höfundum myndbandsins, ásamt aðalleikaranum Sigurði Illugasyni.
Fréttablaðið/Aðsend

Ákafur að fá annan Óskar í bæinn

Með aðalhlutverk myndbandsins fer Húsvíkingurinn Sigurður Illugason sem hefur verið burðarstólpi í leiklistarlífi bæjarins um áratugaskeið. Sigurður leikur Óskar Óskarsson sem er ákafur að fá annan Óskar í bæinn og deila allir bæjarbúar þeim áhuga að undanskildum einum sem hefði heldur viljað sjá annað lag tilnefnt.

Hannes Óli Ágústs­son endur­vekur eftirminnilegt hlut­verk sitt úr Euro­vision Song Con­test sem hinn kröfu­harði tón­listar­unnandi Olaf Yohansson sem vill helst ekki heyra neitt annað en lagið Jaja Ding Dong.

Will Ferrell og Rachel M­cA­dams fara með aðalhlutverkin í Euro­vision Song Con­test en myndin vakti mikla at­hygli þegar hún kom út sumarið 2020 og var að­dá­endum Söngva­keppni evrópskra sjón­varps­stöðva kær­komin sára­bót þegar keppninni var af­lýst á síðasta ári vegna CO­VID-19.

Hannes Óli vakti mikla athygli sem hinn kröfðuharði tónlistarunnandi Olaf.
Fréttablaðið/Netflix

Kosning um tilnefningarnar hefst næsta föstudag

Meðlimir Óskarsakademíunnar munu kjósa um tilnefningar til 93. Óskarsverðlaunanna frá og með föstudeginum 5. mars og verða tilnefningarnar tilkynntar 15. mars næstkomandi. Þá er ekkert eftir nema að krossa fingur og vona að herferð Húsvíkinga skili sér á réttan stað.

Nánari upplýsingar um Óskarsherferð Húsvíkinga má finna á vefsíðunni Óskar for Húsavík.

Hannes Óli Ágústsson ásamt framleiðendum myndbandsins.
Fréttablaðið/Aðsend