„Maður finnur alveg fyrir þessu. Einfaldar athafnir eins og að labba upp og niður stiga eru erfiðar daginn eftir. Annars er ég nokkuð góður, ég gæti örugglega skokkað stuttan hring ef lærvöðvarnir væru betri,“ segir Sigurður Örn Ragnarsson glettinn, aðspurður hvernig skrokkurinn sé en Sigurður Örn varð um helgina fyrsti Íslendingurinn til að vinna alþjóðlega Járnkarlskeppni (e. Ironman challenge).

Sigurður kom í mark á 8 klukkutímum, 42 mínútum og einni sekúndu, 6 mínútum á undan næsta manni en alls tóku 1.610 manns þátt. Með sigrinum tryggði hann sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu á næsta ári.

„Þetta var fyrsti járnkarlinn minn og um leið í fyrsta sinn sem ég tek maraþon. Þetta var ákveðið óvissustökk. Ég er með bakgrunn úr sundi og vissi að það myndi ganga vel, hjólið gekk vel enda var ég með góða leikáætlun. Hlaupið var svo erfiðasti hlutinn því maður kemur þreyttur af hjólinu,“ segir Sigurður og heldur áfram:

„Þríþrautarhjól reyna mjög mikið á lærvöðvana sem eru vöðvar sem eru mikilvægir í hlaupinu. Vöðvarnir gefa sig á endanum og þá er bara að bíta á jaxlinn og hugsa að það sé bannað að stoppa.“

Járnkarl er ein erfiðasta þrekraun heims, þar sem einstaklingar synda 3,9 kílómetra, hjóla 180 kílómetra og hlaupa að lokum 42,2 kílómetra eða það sem jafngildir einu maraþoni. Sigurður var að keppa í járnkarli í fyrsta sinn en hann er fimmfaldur Íslandsmeistari í ólympískri þríþraut.

„Ég gerði ekki ráð fyrir að vinna gull í þessari grein alveg strax en vissi að tímamarkmiðið sem ég setti mér myndi líklegast duga í efstu tíu. Um leið er þetta löng keppni og maður veit aldrei hvað getur gerst, það eru margir óvissuþættir. Ég sá þegar ég fór af hjólinu að staðan var góð og byrjaði um leið í hugarreikningi á hvernig staðan væri, hversu gott forskot ég væri með og á hvaða hraða ég þyrfti að vera,“ segir Sigurður um frumraun sína í keppninni og segir afrekið vera að síast inn.

„Þetta er að síast inn daginn eftir. Í keppninni var maður mest bara að einblína á að halda forskotinu því þarna voru aðilar sem voru mun vanari þessum aðstæðum. Fyrsta markmiðið var að bæta Íslandsmetið en ég sá fljótlega að það myndi ekki nást og það munaði þremur mínútum.“

Glampandi sól gerði keppendum erfitt fyrir, sérstaklega Sigurði sem gat eðli málsins samkvæmt ekki æft í þrjátíu stiga hita á Íslandi.

„Það var mjög heitt, ekki ský á himni og þetta var í raun eins og að vera í bakarofni. Eftir að hafa æft í 8–9 gráðum voru þetta mikil viðbrigði.“