Þeir sem elska stórar bensínvélar þurfa samt ekkert að óttast því að LT2 V8-vélin fær að halda sér. Um er að ræða 6,2 lítra vél sem ásamt rafmótornum skilar 646 hestöf lum. Þótt það sé aðeins undir afli C8 Z06 er E-Ray samt fljótari í hundraðið vegna rafmótorsins, eða aðeins 2,5 sekúndur. Rafmótorinn er tengdur við 1,9 kWst rafhlöðu sem er ekki hlaðanleg með snúru.

Vélin getur slökkt á fjórum strokkum til að spara eldsneyti og jafnvel er hægt að aka bílnum stuttar vegalengdir á rafmagninu eingöngu. Er þá keyrt á Stealth Mode akstursstillingu en hægt er að velja á milli sex stillinga og þar með talið brautarstillingar. Bíllinn er 110 kílóum þyngri en hefðbundin Corvette vegna rafbúnaðarins og þess vegna eru keramikbremsur og Magnetic Ride Control-fjöðrun staðalbúnaður. Grunnútfærsla Corvette E-Ray mun kosta frá 15 milljónum króna í Bandaríkjunum.