Mikil niðursveifla er á fjölda þeirra sem hefur smitast af COVID-19 í Suður-Kóreu. Faraldurinn náði hámarki þar í landi fyrir rúmum fjórum vikum.

Í gær voru 64 ný smit staðfest í Suður-Kóreu. Eru nú tilfellin þar í landi orðin nærri níu þúsund. Þá hafa 111 látist af völdum COVID-19.

Fjöldi tilfella í Suður-Kóreu er það mesta í Asíu utan Kína. Eru nú bundnar vonir við að staðan batni enn frekar. Heilbrigðisyfirvöld leggja hins vegar áherslu á að ekki megi sýna neitt andvaraleysi.

Alls eru tekin meira en 20 þúsund sýni í landinu á hverjum degi. Nokkur fjöldi er af stöðum þar sem sýni eru tekin og er mikil samvinna milli opinberra og einkarekinna rannsóknarstofa sem greina sýni.

Stendur nú til að setja upp sérstaka bása á alþjóðaflugvellinum í Seúl til að hægt sé að taka sýni úr ferðamönnum frá Evrópu.