Innlögnum á móttökugeðdeild fíknimeðferðar Landspítala hefur fjölgað úr 480 árið 2015 í tæplega 600 árið 2020. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um innlagnir á Vog og móttökugeðdeild fíknimeðferðar Landspítala.

Á árunum 2015-2020 voru 62 prósent innlagðra á móttökugeðdeild fíknimeðferðar karlkyns og 38 prósent kvenkyns. Á sama tímabili hefur innlögnum kvenna fækkað verulega en innlögnum karla fjölgað. Árið 2016 voru innlagðar konur 238 talsins en árið 2020 voru þær 199.

Um 60 prósent innlagna á móttökugeðdeild fíknimeðferðar á Landspítala eru fyrstu innlagnir, en í svari heilbrigðisráðherra segir þó að einhverjir þeirra sem lagðir voru inn á deildina í fyrsta sinn gætu átt að baki fyrri innlagnir á „öðrum legudeildum geðþjónustu eða verið í þjónustu á dag- eða göngudeildum“.

Á árunum 2015-2020 var hlutfall þeirra sem lagðir voru inn á Vog í fyrsta sinn um 50 prósent á hverju ári. Á síðasta ári var hlutfall fyrstu innlagna hjá bæði konum og körlum tæplega 25 prósent.

Mestur munur var á kven- og karlkyni árið 2019, þegar fyrstu innlagnir karla voru 27,7 prósent allra innlagna á Vog en hlutfall kvenna 23 prósent.