Frosti Logason, fjölmiðlamaður, er kominn í leyfi frá níu manna framkvæmdastjórn SÁÁ auk þess sem hann hefur sagt sig úr stjórn Blaðamannafélags Íslands. Frá því var greint á vef Stundarinnar í gær en í gær kom einnig fram að Frosti er kominn í ótímabundið leyfi frá störfum sínum fyrir Sýn en þar hefur hann starfað um árabil.

Á vef Stundarinnar er haft eftir Önnu Hildi Guðmundsdóttur, formanni SÁÁ, að Frosti hafi sjálfur óskað eftir því að losna frá störfum en stjórn Blaðamannafélagsins kom saman og komst einróma að því að óska þess að Frosti myndi víkja úr stjórn, sem hann gerði.

Frosti gekkst við því í vikunni að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína, Eddu Pétursdóttur, ofbeldi og að hafa hótað að birta og dreifa kynferðislegu efni sem hann átti í fórum sínum. Edda steig fram í viðtali við hlaðvarpið Eigin konur í vikunni og greindi frá ofbeldinu.

Frosti gekkst við ásökunum hennar, sagðist ekki rengja frásögn hennar og sagðist taka fulla ábyrgð á hegðun sinni.