Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason segist ekki ætla að biðjast afsökunar vegna ummæla sem hann lét falla um grínistann Stefán Vigfússon fyrr í vikunni, þegar hann kallaði hann „hökulausan maðk“ og að hann myndi hafa gott af því að fá „högg á kjaftinn“.
Í Facebook-færslu sem Frosti birti fyrir skemmstu svarar hann einnig fyrir pistil Jóns Trausta Reynissonar, blaðamanns og framkvæmdastjóra Heimildarinnar, sem fjallaði um þessi ummæli Frosta í pistli á Heimildinni.
„Það eru engar líkur á því að Frosti kalli þjóðarmorð yfir uppistandara. Hins vegar er ekkert svo ólíklegt að einhverjir af hans beiskustu fylgismönnum, sem telja sig hlunnfarna af ósanngjarnri jaðarsetningu karlmanna, álíti á einhverjum tímapunkti að réttasta viðbragðið við ásjónu maðksins sé að kýla hann í andlitið, honum til hagsbóta.“ skrifaði Jón Trausti í pistlinum, sem Frosti kallar kaldhæðnislegan.
„Þar kemur hann með alveg eiturskarpa greiningu á því hvernig svar mitt við endurteknu netníði hafi ekkert með það að gera að bera hönd yfir höfuð sér, heldur sé eingöngu einhverskonar misnotkun á valdi mínu til að afmennska greyið grínistann sem vildi einungis fá að stunda netníð í friði.“ skrifar Frosti sem segir að Stefán hafi skrifað margar færslur þar sem hann veittist að sinni persónu.
„Það hafði jú áður verið gefið út skotveiðileyfi á mig þar sem ég er einn þeirra sem hef að undanförnu mátt sæta því hlutskipti að vera andlag einhliða frásagnar fyrrverandi maka í sérstökum hlaðvarpsþætti sem gerir út á slíkar frásagnir.“ segir Frosti, sem vísar þar til hlaðvarpsins Eigin konur.
Frosti vill meina að frásögn fyrrverandi kærustu sinnar sé ekki með öllu sönn, en minnist þess þó að hann baðst afsökunar á hegðun sinni. Hann heldur því fram að það kaldhæðnislegasta í málinu öllu sé að þáttaröðin Eigin konur sé gefin út á Heimildinni.
„Að lokum vona ég auðvitað að mér verði fyrirgefið að fylgja ekki alltaf hjörðinni en ég ætla ekki hér að fara biðjast afsökunnar á því að hafa staðið upp gegn ofbeldi netníðinga.“ segir Frosti í lok færslu sinnar.