Frönsku ferða­mennirnir tveir sem reyndust smitaðir af afbrigði af kórónuveirunni sem ekki hafði greinst áður á Íslandi, verða ekki sektaðir. Þeir fylgdu sótt­varnar­ráð­stöfunum ekki til hins ítrasta meðan þeir dvöldu hér á landi.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur rað­greining á veirunni sem nú finnst í flestum ný­smituðum ein­stak­ling hér á landi verið ólík því sem áður hefur fundist. Er um að ræða sama af­brigði og fannst hjá ferða­mönnunum tveimur.

Kári Stefánsson greindi frá því í samtali við blaðið í síðustu viku. „Af þeim sem greindust í fyrra­dag, sem voru þrettán, að þá rað­greindum við tíu og sjö af þeim voru með, getum við kallað nýtt stökk­breytingar­mynstur, sem við höfum þó séð áður hjá tveimur frönskum ferða­mönnum,“ sagði Kári á fimmtudag.

Í svari ríkis­lög­reglu­stjóra við fyrir­spurn Ríkis­út­varpsins kemur fram að „vegna van­kunn­áttu var sótt­varnar­ráð­stöfunum ekki fylgt til hins ítrasta.“ Málið hafi verið leyst í sam­starfi við ferða­mennina þar til þeir fóru af landi.

Þeir hafi hins­vegar ekki brotið ein­angrun. Sektum sé ekki beitt nema rík þörf sé á og leið­beiningar og til­mæli hafi reynst vel í af­skiptum af þeim sem ekki fylgi reglum.