„Ef við gerum ráð fyrir að þetta sé ekki af mannavöldum, þá er þetta nokkuð algengt og sérstaklega svona mið- og síðsumars bæði í stöðuvötnum og ám eins og þarna,“ segir Jón S. Ólafsson, vatnalíffræðingur, um froðubólstra sem mynduðust í Elliðaánum í gær.

Froðubólstrarnir fönguðu augu margra vegfarenda sem lögðu leið sína um Elliðaárdalinn í gær og veltu fyrir sér um hvaða fyrirbæri væri að ræða.

Jón segir að litlar líkur séu á að mengun valdi froðunni, heldur náttúrulegar aðstæður í ánni. „Þetta er bara froða sem myndast úr fitu úr rotnandi lífverum í vatninu, bæði þörungum, plöntum og dýrum,“ segir Jón.

Spurður að því við hvaða aðstæður froðubólstrar sem þessir myndist, segir Jón vind og öldugang spila stórt hlutverk, froðan myndist við hreyfingu í vatninu. „Þarna er þetta rétt fyrir neðan fossa eða flúðir þannig að það verður iðustraumur og þá verður fitan að loftbólum.“

Þá segir hann froðuna ekki hafa mikil áhrif á lífríkið í ánni. „Þetta getur haft áhrif á skordýr sem eru að klekjast, eins og mý. Ef mýið lendir í þessari froðu getur það átt erfitt með að fljúga og fest í þessu, en ég held að fiskinum sé alveg sama,“ segir Jón.

Ungviðin létu froðuna ekki stoppa sig og hoppuðu hvert á fætur öðru í vatnið.
Fréttablaðið/Sigtryggur