Karlmaður var á fimmtudaginn síðastliðinn sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir barnaverndarlaga- og blygðunarsemisbrot fyrir að hafa sýnt stjúpdætrum sínum ósiðlegt athæfi, m.a. með því að vera nakinn heima fyrir í fjöldamörg skipti og fróa sér fyrir framan þær.

Í ákæru er maðurinn sakaður um að hafa í fjöldamörg skipti berað sig gagnvart stúlkunum tveim með því „að vera nakinn í fjöldamörg skipti svo að kynfæri hans voru sjáanleg, ýmist ber fyrir neðan mitti eða allsnakinn undir opnum baðslopp, bæði inni í herbergi sínu með opna hurð, þar sem ákærði stundaði auk þess sjálfsfróun liggjandi í rúmi, og inni í stofu íbúðarinnar sitjandi eða liggjandi í sófa,“ eins og því er lýst í ákærunni. Þessu til viðbótar var hann ákærður fyrir að hafa í tvö skipti opnað baðslopp sinn, sem hann var í einum fata, svo að sást í líkama hans nakinn og kynfæri í reisn, og snert á sér kynfærin fyrir framan stúlkurnar.

Loks var hann ákærður fyrir að hafa berað kynfæri sín í reisn fyrir stjúpdóttur sinni og þrifið í hana, er hún hugðist yfirgefa stofuna þar sem þau sátu og horfðu saman á sjónvarp, og sagt henni að horfa á sig.

Fyrir dómi neitaði maðurinn sök, og sagðist ekki kannast við þá háttsemi sem lýst var í ákæru. Kvaðst hann þó minnast þess að hafa fengið holdris er hann sat með annarri stjúpdóttur sinni og horfði á sjónvarp, en taldi hann ólíklegt að hún hafi orðið þess var undir baðsloppnum sem hann klæddist. Sambýliskona hans, móðir dætranna, bar vitni fyrir dóm og greindi frá meintri sýniþörf. Um þennan vitnisburð sambýliskonu sinnar sagði maðurinn að hann kannaðist við að hafa stökum sinnum gleymt sér og staðið nakinn í herbergi þegar hann klæddi sig, en sýniþörfina kannaðist hann ekki við.

„Grátt svæði“ að maðurinn gæti stjórnað gjörðum sínum

Fram kom fyrir dómi að maðurinn hafði greinst með Parkinsonsveiki árið 2011 og að hann tæki lyf við því. Höfðu stjúpdætur mannsins kvartað yfir því að hann væri iðulega verið nakinn heima fyrir, og úr því hefði komist á samkomulag þar sem hann hafði lofað því að vera klæddur nærbuxum undir sloppnum.

Er rakin skýrsla geðlæknis sem unnin var í tilefni af ákærunni, en þar segir að maðurinn hafi engar beinar skýringar á því hvers vegna hann beraði sig, en taldi að hugsanlega væri sjúkdómur hans þar að baki eða lyfin sem hann tæki við honum. Bætti hann síðan við að mögulega „væri [hann] bara perri“.

Geðlæknirinn kvað að lyfinn sem maðurinn tæki við sjúkdómi sínum kynni að valda röskun á hvata stjórnun. Hins vegar gerðu þau hann ekki alls óhæfan um að stjórna atferli sínu. Væri það álitamál og á „gráu svæði“ hvort að hegðun mannsins yrði rakin til lyfjanna.

Var maðurinn talinn sakhæfur og dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi, en litið var til fyrrgreinds álitamáls um lyfjatöku mannsins við ákvörðun refsingar.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.