Minnkandi frjó­semi gæti haft þær af­leiðingar að í­búa­fjöldi muni lækka í hverju einasta landi í heiminum áður en 21 öldin líður undir lok. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Talið er að börnum undir fimm ára aldri muni fækka um yfir fjöru­tíu prósent á næstu ára­tugum.

Rannsóknin gefur til að kynna að í tuttugu og þremur löndum megi búast við að fólks­fjöldi helmingist á næstu átta­tíu árum. Þar á meðal eru Japan, Spánn, Ítalía, Portúgal, Pól­land og Tæ­landi.

Gott fyrir um­hverfið

Jörðin verður heimili 8.8 milljarða manna árið 2100. Það er tveimur milljörðum minna en spár Sam­einuðuð þjóðanna höfðu gert ráð fyrir í spám sínum.

„Þessar spár gætu verið góðar fréttir fyrir um­hverfið, þar sem minna álag verður á mat­væla­fram­leiðslu og minni út­blástur,“ sagði Christop­her Murray, einn höfundur rann­sóknarinnar, í sam­tali við Gurar­dian.

Sam­keppni um inn­flytj­endur

Í lok aldarinnar munu 183 lönd af 195 glíma við fólks­fækkun og öldrun þjóða. Gert er ráð fyrir að meðal­aldur fari hækkandi og munu jafn margir ná ní­ræðis­aldri og fæðast á næstu ára­tugum.

Sam­fé­lög munu taka stakka­skiptum á stuttum tíma að mati Murray. „Við færumst frá tíma­bili þar sem þjóðir velja hvort landa­mæri séu opin eða ekki í átt að al­vöru sam­keppni um inn­flytj­endur, þar sem þeir verða ekki nógu margir.“

Bætt staða kvenna meðal or­saka­valda

Sam­kvæmt niður­stöðum rann­sóknar sem fram­kvæmd var við Was­hington-há­skóla mun frjó­semi vera undir 1,7 börn á hverja konu. Að stað­aldri er miðað við að ef frjó­semi fari niður fyrir 2,1 ríki fólks­fækkun í landinu. Árið 1950 var frjó­semi að meðal­tali 4,7 og árið 2017 var hún 2,4.

Ein helsta á­stæða minnkandi frjó­semi eru aukin menntun og at­vinnu­þátt­taka kvenna sem og bættur að­gangur að getnaðar­vörnum.