Minnkandi frjósemi gæti haft þær afleiðingar að íbúafjöldi muni lækka í hverju einasta landi í heiminum áður en 21 öldin líður undir lok. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Talið er að börnum undir fimm ára aldri muni fækka um yfir fjörutíu prósent á næstu áratugum.
Rannsóknin gefur til að kynna að í tuttugu og þremur löndum megi búast við að fólksfjöldi helmingist á næstu áttatíu árum. Þar á meðal eru Japan, Spánn, Ítalía, Portúgal, Pólland og Tælandi.
Gott fyrir umhverfið
Jörðin verður heimili 8.8 milljarða manna árið 2100. Það er tveimur milljörðum minna en spár Sameinuðuð þjóðanna höfðu gert ráð fyrir í spám sínum.
„Þessar spár gætu verið góðar fréttir fyrir umhverfið, þar sem minna álag verður á matvælaframleiðslu og minni útblástur,“ sagði Christopher Murray, einn höfundur rannsóknarinnar, í samtali við Gurardian.
Samkeppni um innflytjendur
Í lok aldarinnar munu 183 lönd af 195 glíma við fólksfækkun og öldrun þjóða. Gert er ráð fyrir að meðalaldur fari hækkandi og munu jafn margir ná níræðisaldri og fæðast á næstu áratugum.
Samfélög munu taka stakkaskiptum á stuttum tíma að mati Murray. „Við færumst frá tímabili þar sem þjóðir velja hvort landamæri séu opin eða ekki í átt að alvöru samkeppni um innflytjendur, þar sem þeir verða ekki nógu margir.“
Bætt staða kvenna meðal orsakavalda
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var við Washington-háskóla mun frjósemi vera undir 1,7 börn á hverja konu. Að staðaldri er miðað við að ef frjósemi fari niður fyrir 2,1 ríki fólksfækkun í landinu. Árið 1950 var frjósemi að meðaltali 4,7 og árið 2017 var hún 2,4.
Ein helsta ástæða minnkandi frjósemi eru aukin menntun og atvinnuþátttaka kvenna sem og bættur aðgangur að getnaðarvörnum.