Það er tals­verð um­ræða um það í vest­rænum heimi að sam­setning þjóða er að breytast, fjölgun aldraðra er þar hluti af því sem nefnt er og lækkandi fæðingar­tíðni kvenna al­mennt. Slíkt hið sama á einnig við á Ís­landi. Frjó­semi er mæld sem fjöldi lifandi fæddra barna á ævi­skeiði konu og er talið að sú tala þurfi að vera í kringum 2,1 til að við­halda mann­fjölda og sam­setningu þjóðar. Ís­lendingar hafa löngum státað af einni hæstu tíðni í Evrópu en það er að breytast og árið 2018 var sögu­lega lægsta fæðingar­tíðni frá upp­hafi mælinga árið 1853 eða 1,7. Meðal­aldur mæðra hefur einnig hækkað og er hvort tveggja á­hyggju­efni víðar en hér­lendis.

Þær vanga­veltur sem hafa komið fram sem skýra eiga þessar breytingar eru vissu­lega að stóru leyti tengdar sam­fé­lags­gerð. Mikil breyting hefur orðið á um­hverfi kvenna og karla auð­vitað á síðast­liðnum ára­tugum í þessa veru, bæði hafa sam­fé­lög líkt og okkar aukið sam­tryggingu og er það síður nauð­syn­legt að treysta á fjöl­skyldu í starfi, leik, veikindum og um­önnun aldraðra. Aukin menntun kvenna, þátt­taka í at­vinnu­lífinu og breytingar í aldri ein­stak­linga þegar þeir taka sig saman um að stofna fjöl­skyldu eru líka skýringar. Al­mennt má segja að við séum eldri en áður þegar slíkar á­kvarðanir eru teknar og með auknum aldri fylgir minni frjó­semi al­mennt.

Mögu­leikar á barn­eignum og stuðningi eru með því besta sem gerist í heiminum á Ís­landi, það má þó alltaf gera betur og eru þættir eins og fæðingar­or­lof, að­gengi að leik­skóla, bú­setu­úr­ræði og stuðningur í veikindum barna gagn­vart at­vinnu­veit­endum mjög stórir þættir í á­kvörðunar­töku. Víða er­lendis eru þjóðir að gera breytingar og reyna að hífa upp frjó­semis­tölur með því að bjóða t.d. ó­keypis leik­skóla­pláss, niður­greiðslur hvers konar á þjónustu og bú­setu, sums staðar eru greiddar þóknanir fyrir að eiga fleiri börn svo dæmi séu tekin. Í Singa­púr er lægsta fæðingar­tíðni í heimi og þar minnir ríkið þegna sína á skyldur sínar innan sem utan svefn­her­bergis. Danir kenna ekki bara kyn­fræðslu til að forðast að eignast börn heldur hvernig skuli eignast þau. Japanska ríkið stendur fyrir stefnu­móta­nálgun fyrir pör og ýtir undir barn­eignir, meira að segja Kín­verjar hafa af­létt banni við eins barns reglu en gengur brösug­lega að hækka frjó­semis­tölur.

Þessi hluti vandans er fyrst og fremst sam­fé­lags­legur og pólitískt úr­lausnar­efni að eiga við . Hinn læknis­fræði­legi veru­leiki er sá að eftir því sem konur eldast þá minnka mögu­leikar þeirra til að eiga börn. Þá koma til sjúk­dómar ýmiss konar sem hafa orðið al­gengari og heim­færa má á um­hverfi og að­stæður einnig að hluta. Þeir tengjast streitu, á­lagi og kvíða sem hafa mikil á­hrif á frjó­semi. Talið er að allt að 10-18% para eigi í vand­ræðum með barn­eignir. Eru þar truflanir bæði karla og kvenna sem hafa á­hrif. Fram­leiðsla og egg­los kvenna við marga sjúk­dóma er skert, hið sama gildir um sæðis­fram­leiðslu karla. Sjúk­dómar sem hafa á­hrif á hormóna­fram­leiðslu, kyn­sjúk­dómar, lífs­stíls­sjúk­dómar eins og sykur­sýki, of­fita, á­fengis- og lyfja­notkun eru allt þættir sem hafa nei­kvæð á­hrif á getu okkar til að eignast börn.

Við þurfum að snúa þessari þróun við og hlúa að ungu fólki sem er reiðu­búið og skapa því um­hverfi og að­stæður. Ein­staklingarnir verða einnig að axla sína á­byrgð á þeim fjöl­mörgu þáttum sem leitt geta til skertrar frjó­semi þeirra og tengjast með beinum og ó­beinum hætti lifnaðar­háttum þeirra. Sam­eigin­legt átak í þessu mun vonandi skila okkur aftur í fremsta sæti meðal vest­rænna þjóða. Fleiri ástar­vikur eins og á Bolungar­vík, takk!