Víða um land eru komnir upp svo­kallaðir frí­skápar eða ís­skápar sem fólk getur sett mat í sem það ætlar ekki að neyta og vill gefa á­fram. Ný­lega var einn slíkur settur upp í hverfi 108, við hús­næði Hjálp­ræðis­hersins, og fyrir eru frí­skápar í mið­bæ Reykja­víkur og Breið­holti. Auk þess er svo að finna slíka skápa utan Reykjavíkur á Höfn í Horna­firði og á Akur­eyri. Þá er unnið að því að koma upp skáp líka í Kópa­vogi.

Í Hafnar­firði er svo kominn saman hópur fólks sem vill gjarnan koma slíkum skáp upp en illa hefur gengið að fá stað­setningu fyrir hann en það er auð­vitað al­gert lykil­at­riði að skápurinn sé að­gengi­legur allan sólar­hringinn og tengdur við raf­magn.

Inga Þyrí Kjartans­dóttir er ein þeirra sem stóð að upp­setningu skápanna við Hjálp­ræðis­herinn en þar er bæði að finna ís­skáp og frysti­skáp.

„Það var í desember á síðasta ári sem ég upp­götvaði frí­skápinn á Berg­þóru­götunni og ég fór að fara þangað með mat og tengdist þannig grúppunni sem skipu­leggur hann,“ segir Inga Þyrí og að hún hafi svo í kjöl­farið séð færslu í hverfis­hóp 108 þar sem spurt var hvort að á­hugi væri fyrir því að koma upp slíkum skáp í hverfinu.

„Ég svaraði því og sagði að það væri auð­vitað undir okkur komið að finna stað­setningu,“ segir hún og að stuttu seinna hafi verið stofnaður hópur í kringum það og fundinn ís­skápar.

„Við sóttum ís­skápana og ég geymdi þá í bíl­skýlinu hjá mér í vetur en það var þrautinni þyngra að finna stað­setningu,“ segir Inga Þyrí og að þau hafi leitað víða og talað við sem dæmi rekstrar­aðila Austur­vers, Hjálpar­stofnun kirkjunnar og fleiri aðila en að lokum hafi þau talað við Hjálp­ræðis­herinn sem hafi verið mjög já­kvæður hug­myndinni.

Þá fór vinna af stað við að sníða kassa utan um ís­skápana og svo þann 4. maí voru þeir form­lega opnaðir og settir í raf­magn.

„Þetta hefur verið sam­starf í­búanna í hverfinu og Hjálp­ræðis­hersins,“ segir Inga Þyrí.

Í 108 er bæði frysti- og ísskápur.
Mynd/Aðsend

Viðbrögð bæjarins vonbrigði

Agnieszka Sokolowska, íbúi í Hafnar­firði er ein þeirra sem hefur haft mikinn á­huga á því að koma upp frí­skáp í Hafnar­firði og byrjaði á því að senda póst á bæinn um hvort það væri mögu­lega hægt, í sam­starfi við þau, að koma upp slíkum skáp í mið­bænum en hefur ekki fengið góð við­brögð frá bænum.

„Við­brögðin voru ein­hvern veginn þannig að ég þyrfti að svara eins og ég væri verk­efnis­stjóri, en þetta er ekki þannig, þetta á að vera sam­fé­lags­verk­efni,“ segir Agnieszka og að þessi við­brögð bæjarins hafi verið von­brigði.

Hún stofnaði í kjöl­farið hóp á Face­book fyrir frí­skápinn í Hafnar­firði og telja með­limir núna um 30 sem hafa öll á­huga á því að koma með ein­hverjum hætti að upp­setningu hans og við­haldi. Hún segir að þau vinni núna að því að tala við fyrir­tæki í bænum þar sem mögu­lega væri hægt að koma honum upp en bíður þess að ein­hver svari og taki verk­efnið að sér.

Agnieszka vill koma upp frískáp í Hafnarfirði en gengur illa að finna staðsetningu.
Mynd/Aðsend

„Þetta verður að vera á ein­hverjum stað þar sem gott að­gengi og það gengur varla að hafa þetta á einka­lóð, þótt það sé víða vilji, því það verður alltaf ein­hver truflun,“ segir Agnieszka.

Gefst ekki upp

Hún vonast til þess að hægt verði að finna stað­setningu sem fyrst því það sé búið að bjóða þeim timbur til að smíða utan um skápana og telur að það verði ekki vanda­mál að finna ís­skáp.

„Það væri best ef hann væri í mið­bænum í Hafnar­firði og það er þarna bæði Hafnar­borg og bóka­safnið sem er mið­svæðis sem væru góðar stað­setningar,“ segir hún og að það sé ekki hægt að taka verk­efnið lengra fyrr en stað­setningin er komin.

„En ég ætla ekki að gefast upp og held á­fram að reyna að fá fólk með okkur,“ segir hún að lokum.

Hægt er að fylgjast með frí­skápnum í 108 hér og hægt að hafa sam­band við Agnieszku ef fólk vill taka þátt í upp­byggingu skápsins í Hafnar­firði en sá hópur er lokaður á Face­book.