Á fyrstu þremur starfsárum sínum snéri Landsréttur tíu sakfellingardómum héraðsdóms í kynferðisbrotamálum við og sýknaði ákærða. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn þingmannsins Andrésar Inga Jónssonar um dómaframkvæmd Landsréttar.

Alls var 71 kynferðisbrotamál dæmt í Landsrétti á árunum 2018, 2019 og 2020. Tveir þessara dóma hafa verið ómerktir í Hæstarétti og einn til viðbótar felldur niður af ákæruvaldinu. Af 68 málum var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 31 máli.

Refsing milduð í átján málum

Niðurstöðu um sekt eða sýknu var snúið við í ellefu tilvikum; í tíu tilvikum var sýknað í Landsrétti í kjölfar sakfellingar í héraði.

Í tuttugu og fimm tilvikum var ákvörðun héraðsdóms um refsingu breytt; í langflestum tilvikum til refsimildunar eða í átján tilvikum.

„Undanfarið hafa reglulega birst fréttir af dómum Landsréttar sem bentu til þess að hann væri mildari í þessum málaflokki en héraðsdómstólarnir. Mér fannst vanta almennilegar upplýsingar um alla dóma til að geta betur séð hvort þessi tilfinning ætti við rök að styðjast,“ segir Andrés Ingi um ástæður fyrirspurnarinnar.

„Þetta er allavega verðugt rannsóknarefni fyrir fræðimenn á sviði lögfræði.“

Andrés segir svörin gefa ástæðu til frekari spurninga og nánari skoðunar á því hvernig hið nýja millidómstig sé að virka.

„Þetta er allavega verðugt rannsóknarefni fyrir fræðimenn á sviði lögfræði.“