„Flugskýlið er búið að standa þarna frá 1940, þar inni er rekstur sem stendur mjög vel. Með friðuninni er búið að skapa stöðugleika, þetta er mjög mikill léttir að vita að það verði ekki rifið,“ segir Hilmar Á. Hilmarsson, athafnamaður og eigandi flugskýlis 1 á Reykjavíkurflugvelli.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær þá hefur mennta- og menningarmálaráðherra samþykkt tillögu Minjastofnunar um að friða flugskýlið. Ekki hefur verið gengið formlega frá friðlýsingunni.

Hilmar segir friðlýsingu ekki breyta neinu fyrir starfsemina, það sem hún geri sé að skapa stöðugleika um starfsemina.

„Þetta er í rauninni trygging fyrir því að skýlið fari ekki neitt. Það hefur reglulega verið skipt um stjórnendur hjá Isavia á meðan við höfum verið með rekstur í skýlinu, annað slagið koma upp hugmyndir um að rífa skýlið,“ segir Hilmar.

Margþættur flugrekstur er nú til staðar í skýlinu. „Skýlið er 3.000 fermetrar. Í norðurendanum er Flugfélagið Ernir. Flugvirkjar eru þarna með starfsemi. Svo eru líka geymdar þyrlur þarna inni, annað slagið eru þarna einkaþotur.“

Forsendur Minjastofnunar fyrir friðun eru að skýlið sé með elstu mannvirkjum á flugvellinum, smíðað af Bretum í síðari heimsstyrjöld og burðarvirkið kunni að hafa varðveislugildi á heimsvísu. „Nánast hvert einasta flugfélag sem hefur verið stofnað hér á landi hefur verið með starfsemi í skýlinu. Loftleiðir byrjuðu í þessu skýli,“ segir Hilmar.

Stálburðargrindin í skýlinu var smíðuð af sömu aðilum og gerðu Ölfusárbrú. Fréttablaðið/Eyþór

Hilmar segir ferlið hafa tekið langan tíma. Reykjavíkurborg hafi ekki sett sig upp á móti friðun en málið hafi verið lengi inni í ráðuneyti. Hilmar segir að það kunni að skýrast af því að ríkið eigi lóðina sem skýlið stendur á. „Reykjavíkurflugvöllur er sérstakur að því leyti að þar eru engar lóðir fyrir húsnæði. Lóðin sem flugskýlið stendur á heyrir undir fjármálaráðuneytið,“ segir Hilmar. Isavia sendi frá sér erindi til Minjastofnunar vorið 2018 þar sem lögð voru fram gagnrök fyrir friðun. „Isavia hefur barist á móti friðuninni. Þeir fóru með þetta til fjármálaráðuneytisins til að koma í veg fyrir friðun. Ég er glaður að vita að þessu sé lokið.“

Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi bréf á mennta- og menningarmálaráðuneytið í október í fyrra þar sem lýst er yfir andstöðu við friðlýsingu. Segir að flugskýlið standi á einu verðmætasta byggingarsvæði landsins. Geti friðlýsing takmarkað „eðlilega og skynsamlega uppbyggingu“ á landinu, það myndi þá einnig búa til eignaverðmæti sem voru ekki áður til staðar.

Varðandi minjavernd segir í bréfinu að frekar ætti að friðlýsa eitthvað annað flugskýli sem sé í eigu ríkisins og koma þeim fyrir nálægt flugturninum ef flugstarfsemi leggst af á Reykjavíkurflugvelli. Það sé „mun eðlilegra“ en að friðlýsa flugskýli 1 sem sé í eigu einkaaðila.

Hilmar segir að nú sé kominn þrýstingur á lóðaúthlutun innan flugvallarins. „Við myndum þá fá lóðarleigusamning, þeir myndu áfram eiga lóðina, við þyrftum bara að greiða leigu. Ég veit ekki af hverju það er ekki þannig núna.“