Níu hafa tilkynnt framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer 4. til 5. júní næstkomandi. Þeirra á meðal er Friðjón Friðjónsson eigandi KOM ráðgjafar en hann hefur verið meðal helstu áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum um árabil.

„Ég hef undanfarin ár rekið lítið fyrirtæki með fimm til sex manns í vinnu og mér hefur oft fundist skorta á skilning stjórnmálanna á högum þannig fyrirtækja,“ segir Friðjón aðspurður um framboðið. Rekstur fyrirtækja eins og hans sé oft erfiður.

„Ég hef lent í þvi að þurfa að láta mín laun bíða til að borga starfsmönnum á tíma. Þetta er umhverfi þar sem engum er gefið neitt og enginn í rekstri biður um það. En stjórnmálin og kerfið þurfa að búa til gott umhverfi fyrir litlu blómin. Lítil fyrirtæki eins og okkar borga launin og skattana og standa þannig undir velferðinni fyrir okkur öll. Það eru óteljandi tækifæri framundan. Þess vegna gef ég kost á mér.“

Áslaug og Guðlaugur keppa um fyrsta sætið

Fimm ár eru síðan síðast var haldið prófkjör í flokknum fyrir alþingiskosningar en stillt var á lista fyrir kosningarnar 2017 vegna þess hve brátt þær bar að.

Í prófkjörinu 2016 bar Ólöf Nordal heitin sigur úr býtum og því á enginn þann sigur að verja í komandi prófkjöri.

Eins og fram hefur komið takast tveir ráðherrar í ríkisstjórn á um fyrsta sætið í prófkjörinu, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Guðlaugur Þór var í öðru sæti á eftir Ólöfu í síðasta prófkjöri og leiddi lista flokksins í Reykjavík suður en Áslaug Arna var í öðru sæti á sama lista.

Sigríður og Brynjar vilja leiða annað kjördæmið

Þótt flestir telji líklegt að ráðherrarnir tveir muni leiða sitt hvort kjördæmið er hvorki hægt að afskrifa Brynjar Níelsson, sem sækist eftir 2. sæti í prófkjörinu, né Sigríði Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra sem tilkynnir framboð sitt í dag og mun samkvæmt heimildum blaðsins einnig sækjast eftir 2. sæti. Sá frambjóðandi sem lendir í 2. sæti tekur forystu í því kjördæmi sem sigurvegari prófkjörsins velur ekki. Brynjar og Sigríður sækjast því eftir að leiða annað hvort kjördæmið og etja þar af leiðandi kappi við ráðherrana um annað af efstu sætunum.

Enn einn þingmaðurinn, Birgir Ármannsson, sækist eftir að vera í foryrstusvetinni og býður sig fram í 2. til 3. sæti.

Þeir sem ná 3. og 4. sæti í prófkjörinu munu verma 2. sæti á framboðslistum kjördæmanna og miðað við fylgi flokksins í borginni er um nokkuð örugg þingsæti að ræða.

Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarkona Guðlaugs Þórs vill fá 3. sæti í prófkjörinu og bæði Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarkona Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur og Kjartan Magnússon fyrrverandi borgarfulltrúi vilja 3. til 4. sæti.

Þá setur Friðjón stefnuna á 4. sætið. Aðspurður um þá hógværð í samanburði við aðra frambjóðendur svarar Friðjón: „Þetta er annað sætið í öðru kjördæminu og öruggt þingsæti. Fyrir á fleti eru fimm þingmenn og svo áhugaverðir frambjóðendur,“ svarar Friðjón.

Framboð Friðjóns þarf kannski ekki að koma á óvart þegar rifjað er að hann hefur verið venjufremur opinskár um viðhorf sín til vegferðar Sjálfstæðisflokksins. Í grein í Morgunblaðinu 28. Janúar síðastliðinn sagði hann flokkinn hafa það yfirbragð að hann vilji ekki breytingar í takt við tímann og umheiminn. Hyggist flokkurinn skilgreina sig þannig verði hann að steini eins og tröll í dagrenningu.

Fyrr í þessari viku varaði Friðjón svo í grein sem birtist á visir.is við áframhaldandi stjórnarsamstarfi við Vinstri græn að loknum kosningum, enda stefna þess flokks andstæð öllu því sem Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir.