Fjölmiðlafulltrúi rússnesku ríkisstjórnarinnar, Dmitry Peskov, segir að þótt friðarviðræðurnar sem hafa átt sér stað í vikunni hafi þokast í rétta átt sé ekki hægt að segja að þær hafi staðist væntingar.

Viðræðurnar sem áttu sér stað í Genf, Vín og Brussel hafi þokast í rétta átt en að það sé enn ósætti um ákveðin atriði.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fundaði í Vínarborg í gær þar sem ræddar voru öryggiskröfur Rússa og ákvörðun rússnesku ríkisstjórnarinnar um að senda fjölda hermanna og vopn að landamærum Úkraínu.

Utanríkisráðherra Póllands, Zbigniew Rau, hafði orð á því að ástandið væri afar óstöðugt og sagði að hættan á stríði hefði ekki verið meiri í þrjátíu ár.