Frá og með næsta hausti verða tíða­vörur í boði fyrir grunn­skóla­nem­endur í Reykja­vík án endur­gjalds. Vörurnar verða í boði í skólunum og félagsmiðstöðvum.

Saga María Sæþórs­dóttir, nemandi í 10. bekk Lang­holts­­skóla og full­trúi í ung­menna­ráði Laugar­dals, Háa­leitis og Bú­staða lagði fram til­lögu um efnið á fundi ung­menna­ráða og borgar­stjórnar vorið 2020. Til­lagan var sam­þykkt á fundi skóla- og frí­stunda­ráðs Reykja­víkur í gær, 23. mars. Þetta kemur fram í til­kynningu frá borginni.

Skóla- og frí­stunda­sviði var falið að veita auknu fjár­magni til að auð­velda að­gengi barna og ung­menna að fríum tíða­vörum frá og með haustinu 2020.

Í greinar­gerð með til­lögunni segir m.a. að ýmsir hópar hafi kallað eftir því að tíða­vörur verði taldar til sama vöru­flokks og aðrar hrein­lætis­vörur, s.s. salernis­pappír og hand­sápa á al­mennum salernum, þótt það hafi enn ekki verið sam­þykkt með lögum.

Verk­efnið gefist vel

Haustið 2018 hófst til­rauna­verk­efni um aukna kyn­fræðslu í tveimur grunn­skólum í Reykja­vík, Folda­skóla og Selja­skóla. Sam­hliða aukinni kyn­fræðslu var boðið upp á fríar tíða­vörur í skólunum sem og í þeim fé­lags­mið­stöðvum sem nem­endur þeirra sækja. Nem­endur fengu fræðslu um tíða­vörur og var vörunum komið fyrir á salernum skólanna og fé­lags­mið­stöðvanna. Bæði hafa bindi og tappar verið í boði. Reynslan af verk­efninu hefur verið afar góð og þykir þeim nem­endum sem hafa blæðingar öryggi í því að geta gengið að tíða­vörunum vísum ef á þarf að halda.

Virðis­auka­skattur af tíða­vörum, svo­kallaði bleiki skatturinn, var lækkaður úr 24 prósent í 11 prósent 1. septem­ber 2019 og hefur því al­mennur kostnaður lækkað.

Á­ætlaður heildar­kostnaður fyrir alla grunn­skóla og fé­lags­mið­stöðvar borgarinnar er á bilinu 650 til 750 þúsund á ári.