Rostungurinn Freyja, sem var orðin góðkunnur gestur í smábátahöfn í nágrenni Óslóar, hefur verið aflífaður. Frá þessu var greint í fréttatilkynningu norska sjávarútvegsráðuneytisins í morgun.

Freyja hafði komið sér maklega fyrir á bátum í höfninni með þeim afleiðingum að sumir þeirra sukku undan þunga hennar. Hún hafði laðað fjölda ferðamanna til hafnarinnar og aðsóknin hafði valdið áhyggjum af því að hún kynni að ráðast á fólk ef aðdáendur hennar gerðust of ágengir. Margir þeirra höfðu virt fyrirmæli um að halda sig fjarri henni til að forðast að styggja hana að vettugi.

Ferðamenn höfðu flykkst til að bera Freyju augum.
Mynd/Fiskeridirektoratet

„Ákvörðunin um að aflífa rostunginn var tekin með vísan til heildarmats á áframhaldandi almannahættu við fólk,“ er haft eftir Frank Bakke-Jensen fiskimálastjóra í tilkynningunni. „Við höfum tekið allar hugsanlegar lausnir vandlega til greina. Við komumst að þeirri niðurstöðu að við gætum ekki tryggt velferð dýrsins með neinu móti.“

Samkvæmt tilkynningunni var möguleikinn á að flytja Freyju frá höfninni ræddur í þaula hjá Hafrannsóknarstofnun Noregs.

„Vegna þess hve flókin slík aðgerð hefði verið í framkvæmd komumst við að þeirri niðurstöðu að hún væri ekki raunhæfur kostur.“

Samkvæmt tilkynningunni var Freyja aflífuð eins mannúðlega og kostur var á af starfsmönnum norsku Fiskistofunnar.

„Við skiljum að ákvörðunin kunni að vekja viðbrögð hjá almenningi, en ég er þess fullviss að þetta var rétt ákvörðun. Okkur er afar umhugað um dýravelferð, en líf og öryggi manna verður að njóta forgangs,“ segir Bakke-Jensen.