Réttarhöldin yfir Flemming Mogensen hefjast í dag. Hann hefur játað að hafa myrt hina íslensku Freyju Egilsdóttur Mogensen í janúar síðastliðnum.

Í viðtali við danska fjölmiðla í gær lýsti Alex Mogensen, sonur Flemming, föður sínum sem afar reiðum en veikum manni. Alex furðar sig á því að kerfið hafi vísað föður hans frá þegar hann leitaði sér aðstoðar með sjálfsvígshugsanir nokkrum vikum fyrir morðið.

„Hann fékk ekki þá aðstoð sem hann óskaði eftir og hefði líklega verið hægt að komast hjá því sem gerðist og Freyja enn verið með okkur,“ segir Alex.

Flemming á sögu um samskonar voðaverk árið 1995 þegar hann varð móður Alex að bana.

Skapmikill maður

Alex og Freyja voru í góðu sambandi og hafði hann spurt hana nokkrum dögum fyrir morðið hvort hún óttaðist að Flemming myndi gera henni mein, hún hafi svarað því játandi, upplýsir Alex í viðtalinu.

Hann lýsir föður sínum sem fúlum og reiðum manni, sem innst inni býr yfir mikilli vanlíðan. „Hann var með mikið skap og maður þurfti að tipla á tánum í kringum hann, þar sem það þurfti lítið til að hann myndi brjálast,“ rifjar hann upp frá æskuárunum.

Aðspurður segist hann ekki líta á föður sinn sem skrímsli, en hann vilji vita hvort hann hafi skipulagt morðið eða framið verknaðinn í bræði, sem segir þá til um hversu lasinn hann er, segir Alex.

„Ég heimsótti hann í síðustu viku í fangelsið og mig langar að fá að tala um morðið við hann, svo ég geti haldið áfram með líf mitt,“ segir Alex.