„Það telst almenn kurteisi og mannvirðing að biðjast afsökunar þegar okkur verður á. Það er hinsvegar mjög rotin afsökunarbeiðni og ekki afsökunarbeiðni í raun að afsaka sig með áfengisneyslu og því að eiga vini sem tilheyra minnihlutahópum (sbr. Gunnar Bragi í Kastljósi).“

Þetta skrifar Freyja Haraldsdóttir í færslu sem hún birti á Facebook í nótt. Freyja var ein af þeim sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hæddust að í samtali á Klaustri bar fyrir rúmri viku. Upptökur af samtölunum og fréttir þeim tengdar hafa verið birtar í fjölmiðlum. Þar fóru þingmenn niðrandi orðum um margar konur og fáeina karla.

Freyja segir að sín fyrstu viðbrögð hafi verið að verja hvorki krafti né orðum í hatursorðræðuna. Hún segir hins vegar að þetta ofbeldi hafi tekið sinn toll. „Eftir að hafa hugsað mikið um þetta, rætt við kærleiksríkt samstarfsfólk, tekið við slatta af ást í gegnum samfélagsmiðla, grátið töluvert, verið kaffærð í faðmlögum frá vinum og fjölskyldu og fylgst með umræðunni eins og hjartað mitt og taugakerfi þolir er eitt og annað sem ég ætla að segja,“ segir Freyja.

Hún segir að aðför að sínum fatlaða líkama snúist ekki bara um að grín sé gert að fötluðum heldur sé það birtingarmynd kvenfyrirlitningar og fötlunarfyrirlitningar. „Um er að ræða fyrirlitningu sem á sér djúpar sögulegar rætur og endurspeglar ævagömul viðhorf til fatlaðs fólks sem dýra - óæðri manneskjum. Það í samhengi við niðrandi umræðu um útlit og kynþokka kvenna er kvenfjandsamlegt. Ég er ekki bara fötluð. Ég er kona. Ég get ekki tekið mig í sundur og verið stundum fötluð og stundum kona. Ég er alltaf (stolt) fötluð kona.“

Hún segir að um kerfisbundið hatur sé að ræða, sem beinist harðast gagnvart fötluðu fólki, hinsein fólki, konum og karlmönnum sem passi ekki inn í hugmyndir um karlmennsku. Það sé hvorki tilviljun né einsdæmi að þessir hópar séu viðfang orðaníðs fólks með mikil forréttindi. „Það er alltumlykjandi – alltaf“.

Ofbeldi af hálfu valdhafa er alvarlegt, að sögn Freyju. Sérstaklega hættulegt sé þegar fólk í valdastöðum viðhafi hatursorðræðu. Þetta fólk hafi vald til að normalisera orðræðu og ofbeldismenningu. „Ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, má tala svona, þá hljóta allir að mega það.“ Hún segir að það sé ekkert skrýtið að ef þingmenn sjá fatlað fólk sem dýr en ekki manneskjur sé ekki furða að ákvarðanir um líf fatlaðs fólks sé teknar byggt á einhverju allt öðru en mannréttindaskuldbindingum. Þess má geta að í samtali þingmannanna hermdi einn þingmaðurinn eftir hljóði úr sel, þegar Freyju bar á góma.

Á Freyju má skilja að hún sé ekki par hrifin af afsökunarbeiðnum þingmannanna. Það að afsaka sig með áfengisneyslu „og með því að eiga vini sem tilheyra minnihlutahópum“ sé rotin afsökunarbeiðni. Hún vísar þar í orð Gunnars Braga Sveinssonar í Kastljósi í gær. „ Það er líka eitt að verða á og annað að láta hatur gagnvart konum og jaðarsettum hópum vella út úr sér í marga klukkutíma á opinberum vettvangi. Þegar fólk gerist uppvíst um slíkt er ekki forsvaranlegt að henda í eina yfirlýsingu og lofa að drekka færri bjóra næst og halda að þar með verði allt aftur fallegt og gott. Eina leiðin til þess að biðjast afsökunar af trúverðugleika og auðmýkt er að gangast við gjörðum sínum og taka ábyrgð með því að segja af sér.“

Freyju segist verða hugsað til ungra barna sem eru með fötlun og sérstaklega til stúlkna. „Hvernig í veröldinni eiga þau að þróa með sér jákvæða líkams- og kynímynd, upplifa sig eiga framtíð og búa við öryggi í samfélagi þar sem fyrrverandi forsætisráðherra líkir fyrrverandi fatlaðri samstarfskonu sinni við dýr - ofan á allt annað misrétti sem þau verða fyrir vegna fólks í valdastöðum sem sér þau ekki sem mennsk.

Fyrir þau bregst ég við þessu hatri í dag. Við þau vil ég segja: Allir líkamar eiga rétt á sér. Allir líkamar eru verðmætir og verðugir. Allir líkamar mega og eiga að taka sér pláss. Allir líkamar eiga rétt á að búa við friðhelgi frá hverskyns ofbeldi.“