Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður viðurkennir að símtalið þegar hann tilkynnti Bjarna Ákasyni að mál gegn honum hefði verið látið niður falla hafi verið stórkostlegt. Ríkissaksóknari lét málið niður falla eftir ellefu ár en Bjarni var áður ákærður fyrir 44 milljóna króna skattsvik.

Upphafið nær þó til ársins 2007 þegar Bjarni bað um leiðréttingu á skattskýrslu en endurskoðandinn hafði gert mistök sem Bjarni vildi láta leiðrétta.

„Þetta er auðvitað ekki eðlilegur málstími,“ segir Sigurður og bendir á að málið hafi byrjað sem einföld fyrirspurn frá ríkisskattstjóra út af breytingum á skattalögum. „Þá kemur í ljós vitleysa í skattframtölum hjá Bjarna og félögum sem hann á sem hann óskar eftir leiðréttingu á. Það er leiðrétt hjá félaginu en ekki hjá honum,“ segir Sigurður.

Síðan hefur málið velkst um kerfið og Bjarna verið kastað á milli stofnana og dómstiga. Allt frá skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, yfirskattanefnd og héraðsdómi til Landsréttar, en málið var fellt niður í síðustu viku.

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.

Fékk góðu fréttirnar í París

Bjarni var staddur í París þegar Sigurður færði honum góðu fréttirnar.

„Þetta var mjög gott símtal. Hann var staddur inni í búð að kaupa eitthvað á strákana en hann þurfti að yfirgefa búðina. Það er alltaf gaman að svona – sérstaklega þegar maður er búinn að vera sannfærður um að vinna málið svona lengi,“ segir Sigurður.

Málið vari ekki alveg borðleggjandi að sögn Sigurðar. Þegar horft sé yfir það og hvernig kerfið hundelti Bjarna í rúman áratug sé gott að réttlætið hafi sigrað. „Núna er verið að fella málið niður á grundvelli málsástæðna sem ég hélt fram þegar málið var til meðferðar í Landsrétti í fyrra skiptið,“ segir hann.

Sigurður bendir á að þessi málsmeðferðartími sé ekki mjög algengur hér á landi en þó þekkist nokkur dæmi frá hrunmálunum og þetta sé svolítið þekkt í skattarétti.

Ekki náðist í Bjarna við vinnslu fréttarinnar en hann sagði á DV í síðustu viku: „Þetta er búið að taka fimmtán ár úr mínu lífi. Það er skammarlegt að ríkið hafi hagað sér með þessum hætti.“