Þáttinn má sjá í spilaranum hér að ofan

Á Fréttavaktinni í kvöld er þetta helst:

„Sandur í gangverkinu“ var yfirskrift morgunfundar Félags atvinnurekenda og erlendu viðskiptaráðanna hér á landi.

Gífurlegar hækkanir á flutningskostnaði, hækkandi innkaupsverð vöru, seinkanir í alþjóðlegum flutningum og jafnvel vöruskortur blasa nú við fyrirtækjum í milliríkjaviðskiptum. Heimsfaraldur kórónuveirunnar og fleiri ytri áföll hafa ruglað gangverk alþjóðaviðskipta.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA og Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans mæta til Lindu Blöndal í þáttinn.

Dómsmálaráðherra mun láta skoða ummæli lögmanns um að lögregla fari í manngreinarálit í kynferðisbrotamálum – Lögregla sendi kvörtun til ráðherra sem segir alvarlegar ásakanir á ferð hjá lögmanninum. Björn Þorlákssson fréttamaður fer yfir málið en hann hóf umfjöllunina með frétt í lok október.

Gömul kirkja í sveitinni í Ólafsfirði hefur verið tekin af grunni sínum og endursmíðuð. Við heyrum af hugmyndinni á bak við tilfærsluna. Rætt er við Önnu Maríu Guðlaugsdóttur, Hollvinafélagi Kvíabekkjarkirkju og Ásgeir Loga Ásgeirsson, einnig frá félaginu.

Veðurspáin er þessi fyrir miðvikudag: Það verður yfirleitt norðlæg átt á morgun, 5-13 m/s, hvassast norðvestan til. Snjókoma eða él norðanlands en úrkomulítið syðra og bjart með köflum þegar kemur fram á daginn. Hiti 0-6 stig, mildast syðst.