Þáttinn má horfa á í spilaranum hér að ofan

Á Fréttavaktinni í kvöld er þetta helst:

„Kerfið er að stækka og sjóðirnir eru að skila gríðarlega góðum árangri,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða á Fréttavaktinni á Hringbraut um 25 milljarða króna rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna, eins og Fréttablaðið greindi frá í dag.

„Skrifstofu og stjórnunarkostnaðurinn hefur nokkurn veginn staðið í stað í gegnum árin og hlutfallslega verið að lækka því hann miðast við eignir og kerfið er orðið yfir sex þúsund milljarðar,“ segir hún.

Fjárfestingagjöld til verðbréfasjóða og fjárfestingafélaga fóru hins vegar úr 6 í 15 milljarða í rekstrarkostnaði á fjórum árum. Um það segir Þórey: „Þegar að vel árar og eignirnar eru að stækka og þar af leiðandi eignir almennings þá eykst þessi kostnaður óhjákvæmilega.“

Birgir Guðmundsson hjá Háskólanum á Akureyri er tekinn tali vegna ráðherraskýrslu um Akureyri sem svæðisborg á Íslandi en Birgir var formaður nefndarinnar sem sveitarstjórnarráðherra skipaði.

Ný rannsókn á kynbundnu ofbeldi í íslenskum þjóðsögum sýnir rótgrónar hugmyndir og viðhorf til ofbeldis í íslensku samfélagi. Margrét Erla Maack fær til sín Dagrúnu Ósk Jónsdóttur doktorsnema í þjóðfræði við Háskóla Íslands sem ræðir niðurstöður rannsóknar sinnar á birtingarmyndum kvenna í íslenskum þjóðsögum.