Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, og Ingvar Þór Björnsson, fréttamaður, fara yfir helstu tíðindi vikunnar í Fréttavakt dagsins.

Vikan hefur einkennst af átökum á vinnumarkaði og innan veggja Alþingis. Miðlunartillaga Ríkissáttasemjara olli talsverðu fjaðrafoki í lok vikunnar og leiddi í ljós hve snúin staðan er í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Ekkert lát virðist á hvössum ummælum og persónulegum erjum helstu forkólfa.

Umræða um rafbyssur og útlendingafrumvarp lituðu þingstörfin og gerðu það að verkum að yfirstandandi vorþing fór af stað með hvelli.

Þau Arndís og Ingvar telja tilnefningu Söru Gunnarsdóttur til óskarverðlauna vera ljósið í myrkrinu eftir þessa annars þunglamalegu fréttaviku. Nafn myndarinnar My year of dicks, sem einhverjir vilja snara yfir ár mitt með greddumönnum, hefur vakið athygli og reynst mörgum fréttaþulnum ákveðin áskorun.

í lok þáttar heimsækir Fréttavaktin Lalla töframann, sem ætlar að frumsýna barnasýningu án orða í Tjarnarbíó um helgina.