Þáttinn má sjá í spilaranum hér að ofan

Á Fréttavaktinni í kvöld er þetta helst:

Sigríður Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri Landspítalans segir stöðu hjúkrunarfræðinga innan spítalans risavaxið mál og alþjóðlegt. Engin lausn sé að flytja inn erlenda starfskrafta. Linda Blöndal fær Sigríði til sín en Sigríður sækist eftir því að taka við sem forstjóri Landspítalans.

Fordómarnir fara eftir því hvað stétt þú tilheyrir, segir hin pólskættaða Karolina Boguslawska listfræðingur og leiðsögumaður um viðhorf til Pólverja á Íslandi. Karolina, sem hefur búið hér í 21 ár, segir reynslu sína þá að fordómar séu minni gagnvart fólki sem er menntað eins og hún og í listageiranum. Annað var uppi á tengingnum þegar foreldrar hennar fluttu hingað 2015, þá hafi faðir hennar lent í "hákörlum" sem misnotuðu illa vinnukrafta hans, fyrsti vinnuveitandinn hafi greitt honum 450 krónur á tímann og unnið var 12 tíma á sólarhring alla daga vikunnar.

Íslenska kartaflan er spennandi og óþrjótandi viðfangsefni segja sviðshöfundar sem halda erindi annað kvöld í Bókasafninu í Urriðaholti. Þetta eru þau Birnir Jón Sigurðsson sviðshöfundur, Arnar Geir Gústafsson borgarskipulagsfræðingur og sviðshöfundur og Hallveig Kristín Eiríksdóttir sviðshöfundur sem mæta til Margrétar Erlu.

Veðurspáin er þessi:

Á morgun miðvikudag verða suðaustan 8-13 m/s en hæg breytileg átt austanlands. Bætir í vind sunnan og vestan til annað kvöld. Bjart með köflum en stöku snjó- eða slydduél suðvestan og vestanlands. Hiti öðru hvoru megin við frostmark við sjávarsíðuna.