Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar um fyrirhugaða breytingu á lóðamörkum við Einimel 18 til 26 í Vesturbæ ekki gefa rétta mynd af þeirri ákvörðun sem samþykkt var á fundi borgarráðs.

Í tilkynningunni komi til dæmis ekki skýrt fram að lóð Vesturbæjarlaugar minnki sem nemur útfærslunni. Það komi hins vegar skýrt fram í þeirri tillögu sem samþykkt var.

Þá segir jafnframt að heimilað sé að stækka eina lóðina við Einimel lítillega út til norðurs í átt að gangstétt í borgarlandi. Þessi lítillega útfærsla nemi þremur metrum inn á fjölfarinn hverfisstíg við leikskólann Vesturborg.

Borgarráð samþykkti í dag breytingu um að lóðamörk við Einimel 18 til 26 í Vesturbæ yrðu færð út sem nemur 3,1 metrum. Sundlaugartúnið svokallaða, lóðin við Vesturbæjarlaug minnkar sem því nemur. Miklar deilur hafa verið vegna túnsins og hefur borgin verið sökuð um að gefa eftir.

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi VG sat hjá.

Teitur Atlason, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði af sér vegna málsins í mars í fyrra.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna málsins segir að fyrirliggjandi tillaga feli í sér að mörk nokkurra einkalóða séu færð út um allt að 3,1 metra og að Sundlaugartúnið, borgarland, minnki sem því nemur.

„Með breytingunni mun Sundlaugartúnið minnka um nokkur hundruð fermetra. Slíkt er óforsvaranlegt. Skortur er á grænum svæðum í Vesturbænum þar sem þeim hefur farið fækkandi á undanförnum árum,“ segir jafnframt í bókuninni og að með þessari ákvörðun haldi meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar áfram á þeirri braut .

„Sundlaugartúnið er vinsælt leiksvæði barna og unglinga en með þessari ákvörðun er dregið úr möguleikum til notkunar þess og frekari þróunar sem almenningssvæðis. Stækkun einnar lóðarinnar um þrjá metra til norðurs er sérstakt áhyggjuefni.“

Í bókuninni kemur fram að með þessu sé gengið á hverfisstíg, sem þjóni gangandi og hjólandi umferð margra Vesturbæinga. „Stígurinn er þröngur og frekar ætti að leita leiða til að breikka hann en festa þrengingu hans í sessi eins og hér er lagt til.“