Fréttaþulur CNN, Chris Cuomo, hefur verið vikið úr starfi um óákveðin tíma fyrir brot á siðareglum blaðamanna.

Chris aðstoðaði bróður sinn, Andrew, fyrrverandi ríkisstjóra New York í Bandaríkjunum eftir að hann hafði verið ásakaður um kynferðisofbeldi.

Frá þessu er greint ávef BBC.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr á árinu að Andrew hefði meðal annars verið ásakaður um kynferðislega áreitni í garð þriggja kvenna.

Fjöldi kvenna steig fram í kjölfarið og Andrew sagði af sér í ágúst vegna málsins.

Bróðir hans og fréttaþulur CNN, Chris, er sagður hafa reynt að aðstoða bróður sinn á bak við tjöldin.

Ný skjöl sem gefin voru út af saksóknara í New York sýna að Chris átti meiri þátt í að aðstoða bróður sinn en CNN hafði vitneskju um.

Samkvæmt vef BBC kemur fram að CNN hafi gefið út yfirlýsingu á þriðjudag þar sem fram kemur að skjölin, sem þau hafi ekki verið meðvituð um fyrr en þau voru birt opinberlega, vekji upp alvarlegar spurningar.

Chris hafi viðurkennt á sínum tíma að hafa ráðlagt starfsfólki bróður síns og að það hafi verið viðurkennt opinberlega. Hins vegar hafi það komið CNN í opna skjöldu að þátttaka hans hafi verið meiri en upphaflega var gert ráð fyrir.