Fréttamönnum hefur verið meinaður aðgangur að hvalstöðinni í Hvalfirði.

Starfsmenn Hvals hf. eru á fullu að veiða og verka hval. Katlarnir hafa verið kyntir og mikil umferð var á svæðinu um hádegisbil þegar vaktaskipti fóru fram. Góður afli var í gær sem búið er að verka og ganga frá.

Fyrsta langreyðurin var veidd fyrir þremur vikum eftir fjögurra ára hlé og ljóst er að aflinn hafi hingað til verið mikill. Komið var með fjórar langreyðar að landi í gær og því mikið um að vera á hvalstöðinni í dag við vinnslu hráefnisins.

Fréttamenn Fréttablaðsins og Hringbrautar voru á svæðinu fyrr í dag og óskuðu eftir að komast að hvalstöðinni en Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf, neitaði fréttamönnunum um aðgang og sagðist ekki vilja ræða við fjölmiðla um eitt né neitt.

Hvalfriðunarsamtökin Sea Shepherd og Hard to Port eru sömuleiðis á sínum eigin skipum í Hvalfirði að fylgjast með hvalveiðum til að fylgjast með og skrá heimildir um hvalveiðar.

Fjallað verður nánar um hvalavertíðina í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld. Þrátt fyrir að forstjóri Hvals hafi meinað fréttamönnum að fara að vinnslusvæðinu verða þar sýndar myndir af verkun langreyðanna í dag.