Það getur allt gerst í beinni útsendingu eins og áhorfendur WSAZ-sjónvarpsstöðvarinnar í Vestur-Virginíuríki í Bandaríkjunum komust að raun um á dögunum.
Fréttakonan Tori Yorgey var í beinni útsendingu að flytja fréttir af neysluvatnsröri sem fór í sundur í bænum Dunbar. Dimmt var og nokkuð svalt í veðri þegar ökumaður jepplings gætti ekki að sér og ók á Tori með þeim afleiðingum að hún féll nokkuð harkalega í jörðina.
Betur fór þó en á horfðist og slapp Tori óslösuð frá óhappinu. Áhyggjufullur fréttaþulurinn sem var í stúdíói fréttastofunnar, Tim Irr, spurði Tori hvort hún væri heil heilsu og svaraði hún því játandi. Hélt hún áfram með fréttina og kláraði hana.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að Irr hafi verið gagnrýndur fyrir viðbrögð sín – eða viðbragðsleysi öllu heldur – við óhappinu. Útskýrði hann málið þannig að hann fylgst með atvikinu af litlum skjá í talsverðri fjarlægð í stúdíóinu og ekki séð nægjanlega vel hvað gerðist. Var hann í raun einungis með hljóð í eyrunum þegar óhappið varð.
Í frétt NBC News kemur fram að Tori hafi leitað á sjúkrahús eftir atvikið. Læknar skoðuðu hana en hún reyndist vera óslösuð.