Rússneska fréttakonan Marína Ovsjanníkova, sem vakti heimsathygli þegar hún mótmælti innrásinni í Úkraínu í beinni útsendingu í fréttatíma á ríkisreknu sjónvarpsstöðinni Stöð 1, hefur verið handtekin og ákærð.

Það var í mars síðastliðnum sem Ovsjanníkova gekk inn í fréttaútsendingu með mótmælaspjald með textanum: „Ekkert stríð. Stöðvið stríðið, ekki trúa áróðrinum, hér er verið að ljúga að ykkur. Rússar gegn stríði.“

Ovsjanníkova var sektuð um 30.000 rúblur vegna uppátækisins og hætti síðan störfum hjá sjónvarpsstöðinni.

Ovsjanníkovu er nú gefið að sök að hafa dreift rangfærslum um rússneska herinn, sem er glæpur sem getur leitt til allt að tíu ára fangelsisvistar. Ákæran gegn henni tengist mótmælum sem hún var viðstödd í júlí þar sem hún hélt á mótmælaspjöldum gegn stríðinu á móti Kreml við Moskvufljót. Á spjaldinu stóð: „Pútín er morðingi. Hermenn hans eru fasistar.“

Lögreglumenn komu á heimili Ovsjanníkovu klukkan sex að morgni og fluttu hana til yfirheyrslu á lögreglustöð eftir að hafa gert húsleit hjá henni.

„Eru þessi rúmlega 350 börn sem dóu í Úkraínu falsanir?“ skrifaði Ovsjanníkova á Facebook-síðu sinni. „Allur heimurinn þekkir söguna af Sergej, sem missti alla fjölskyldu sína í Írpín. Allir sáu ungu móðurina frá Vínnytsja sem missti fjögurra ára dóttur sína, og sjálf var hún fótlaus. Var þriggja mánaða gamla barnið frá Odesa líka falsað? Hversu mörg börn þurfa að deyja í viðbót áður en þið látið staðar numið?“