Bruna Macedo, fréttakona CNN Brasil, var í beinni útsendingu í Sao Paulo í Brasilíu þegar maður ógnaði henni með hníf og rændi hana um hábjartan dag.

Hún hlaut ekki skaða af en var skiljanlega í nokkru áfalli eftir atvikið, að sögn samstarfsmannsins Rafael Colombo sem var að ræða við hana í beinni þegar atvikið átti sér stað.

Hann sagði í samtali við brasilíska dagblaðið Fohla de Sao Paulo að erfitt hafi verið að átta sig á því hvað manninum gekk til í fyrstu en klippt var á útsendinguna fljótlega eftir að hann nálgaðist fréttakonuna.

Fljótlega upplýsti Colombo áhorfendur um útlit væri fyrir að um væri að ræða heimilislausan mann sem vildi komast fram hjá Macedo.

Síðar mætti hún í myndverið og útskýrði að maðurinn hafi ógnað henni og viljað fá símana tvo sem hún hafði meðferðis.

Colombo sagði í áðurnefndu viðtali að það mikilvægasta væri að Macedo væri heil á húfi.