Eins og glöggt má sjá í þessu tölublaði er það með nokkuð breyttu sniði, frá því sem lesendur eiga að venjast. Ástæðan er að félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands lögðu niður störf í tólf tíma klukkan 10 í gærmorgun. Um var að ræða blaðamenn sem skrifa fréttir í blað, ljósmyndara og prófarkalesara.

Þetta er fjórða vinnustöðvun félaga í Blaðamannafélagi Íslands og um leið sú síðasta í þeim aðgerðum sem ákveðnar hafa verið af hálfu félagsmanna. Áður beindust aðgerðir að flutningi frétta á netinu.

Blaðamenn felldu í síðustu viku nýjan kjarasamning Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Samninganefndir aðila funduðu síðast á þriðjudag en þær viðræður hafa ekki leitt til niðurstöðu. Ekki hafa verið greidd atkvæði um frekari aðgerðir blaðamanna að svo komnu máli.

Það er fullt starf fjölda starfsmanna á ritjstórn að skila efni í hvert tölublað og því var ekki mögulegt annað en að blað dagsins bæri merki þessara aðgerða.

Fréttablaðið hefur skyldur við lesendur og auglýsendur og því var tvennt sem lagt var til grundvallar þeirri ákvörðun að blaðið yrði gefið út við þessar aðstæður. Annars vegar að virða rétt blaðamanna til vinnustöðvunar. Því eru ekki fréttir í þessu tölublaði, en birt er annað ritsjórnarefni, sem tilbúið var áður en verkfall brast á.

Hins vegar að auglýsendur geti reitt sig á auglýsingamátt blaðsins og ekki kæmi rof í nærri tuttugu ára útgáfusögu þess. Eins og kunnugt er berst Fréttablaðið lesendum sínum þeim að kostnaðarlausu og eru auglýsingar eina tekjulind þess.

Þrátt fyrir þetta er öflugur fréttaflutningur vefnum frettabladid.is og hringbraut.is. Á þeim netmiðlum er rekin ein öflugasta fréttastofa landsins og því er lesendum blaðsins bent á að þar verða fluttar fréttir í dag eins og endranær.

Næst kemur Fréttablaðið út á morgun, laugardaginn 7. desember og þá með hefðbundnu sniði.

Hægt er að lesa blað dagsins í PDF útgáfu hér.