Frétta­blaðinu var boðið að taka þátt í hring­borðs­um­ræðum með Robert Bur­ke, flota­foringja í sjó­her Banda­ríkjanna í Evrópu. Boðið barst á mánu­dag en fundurinn hófst klukkan þrjú í dag.

Rúmum klukku­tíma áður en hring­borðs­um­ræðurnar áttu að hefjast bárust skila­boð frá sendi­ráðinu til ritstjórnar blaðsins, þess efnis að nær­veru Frétta­blaðsins væri ekki óskað. (e. Frétta­blaðið's participation is turned off).

Stað­festi að smit hefði komið upp

Banda­ríska sendi­ráðið birti í nótt Face­book og Twitter færslur þar sem Frétta­blaðið var sakað um „fals­frétta­flutning“ vegna fréttar af smiti starfs­manns í sendi­ráðinu og flutningum sem fram fara um helgina.

Þrátt fyrir að Sendiráðið saki Fréttablaðið um falsfréttaflutning staðfesti það í sömu færslum á samfélagsmiðlum, að starfsmaður sendiráðsins hefði smitast af Covid-19. líkt og fram kom í frétt blaðsins.

„Löngu eftir vígslu kom upp eitt til­felli vegna smits í ís­lenskum skóla,“ segir í færslunni. Vígslan fór fram þriðju­daginn í síðustu viku, þann 20.októ­ber. Frétta­blaðið greindi frá því að smit hefði komið upp í sendi­ráðinu í síðustu viku.

Segir í færslunni að ömur­legt sé að „Fals-Frétta­blaðið“ sé svo ó­fag­mann­legt og sýni virðingar­leysi „með því að nota CO­VID-19 í pólitískum til­gangi.“ Að lokum er full­yrt að banda­ríska sendi­ráðið hafi alltaf verið og sé öruggasta at­hvarfið frá CO­VID-19 í Reykja­vík.