Jón Þóris­son, for­stjóri Torgs ehf., út­gáfu­fé­lags Frétta­blaðsins, og Sig­mundur Ernir Rúnars­son, rit­stjóri Frétta­blaðsins, af­hentu rúss­neska sendi­ráðinu form­legt svar­bréf vegna að­dróttana sendi­ráðsins gegn blaðinu í dag.

Tveir erind­rekar rússneska sendi­ráðsins af­hentu Fréttablaðinu í morgun bréf þar sem krafist var afsökunarbeiðni frá ritstjórn Fréttablaðsins vegna mynd­birtingar á blaðsíðu sex í Frétta­blaðinu og á vef blaðsins.

Torg ehf. segir krafa sendiráðsins grófa í­hlutun í frjálsa fjöl­miðlum á Ís­landi en skömmu áður en bréfið barst í hús var gertð netárás á vef Fréttablaðsins. Umferð um eldvegg vefsins tólf-faldaðist miðað við venju­lega um­ferð milli klukkan 8 og 9 í morgun og þurfti hýsingaraðila að grípa til varna og loka fyrir erlenda umferð um vefinn.

Frétta­blaðið hefur kært net­á­rásina til lög­reglu og óskað eftir því lög­reglan að­stoði við að upp­lýsa hver eða hverjir standa að hótuninni og á­rásinni. Rússneska sendiráðið hefur gefið það út að þeir komi ekki nálægt netárásinni né viti ekki hverjir standa að henni.

Í svari Torgs er í­trekað að mynd­birtingin teljist sem frétta­mynd og er lítið gefið fyrir lög­fræði­skýringar sendi­ráðsins um að slíkt falli undir 95.gr. al­mennra hegningar­laga en Rússar hafa haldið því fram að með birtingunni sé verið að smána rússneska ríkið.

„Torg ehf., út­gáfu­fé­lag Frétta­blaðsins, hafnar að­dróttunum þínum um að birting myndar á bls. 6 í blaði gær­dagsins sé það sem þú nefnir í bréfi þínu „mani­fest of uncovered dis­respect towards its sta­te symbols“. Um er að ræða frétta­mynd sam­bæri­lega við þær sem birtar hafa verið í­trekað í vest­rænum fjöl­miðlum um ára­bil þar sem fáni verður and­lag og tákn­mynd bar­áttu þeirra sem telja á sér brotið,“ segir í svari Torgs.

„Hér á landi flytja fjöl­miðlar fréttir af at­burðum, inn­lendum og er­lendum, og birta myndir þeim tengdar, án leið­beininga frá full­trúum þeirra ríkja sem í hlut eiga.Þá er vert að nefna að á­minning um á­kvæði í ís­lenskum al­mennum hegningar­lögum er í besta falli bros­leg. Starfs­mönnum blaðsins er full­kunnugt um ís­lensk lög og reglur og ó­við­eig­andi að sendi­maður er­lends ríkis sé að brýna þær reglur fyrir ríkis­borgurum gisti­ríkisins. Að endingu skal tekið fram að ekki stendur til að biðjast af­sökunar á um­fjölluninni né birtingu myndarinnar sem um ræðir.“

„Litið er á bréf þitt sem grófa í­hlutun í frétta­flutning frjáls fjöl­miðils á frjálsu og full­valda Ís­landi. Það verður ekki látið ó­á­talið. Án þess að um það sé vitað virðist sem mál­flutningur þinn og mála­leitan byggist á árangurs­ríkri reynslu í að hafa á­hrif á um­fjöllun fjöl­miðla í heima­landi þínu. Hér er ekki uppi sama að­staða. Frétta­blaðið mun á­fram fjalla um at­burði þá sem til um­fjöllunar eru í nefndri frétt og á­fram birta þær myndir sem taldar eru hafa frétta­gildi í því sam­hengi,“ segir að lokum í bréfinu sem sjá má hér að neðan.