Guðmundur Örn Jóhannsson, yfirmaður dreifingarmála Fréttablaðsins, segir dreifingu með nýjum hætti ganga vel.

„Nú er hægt að nálgast Fréttablaðið á Stór-Reykjavíkursvæðinu í öllum Bónus-, Nettó- og Hagkaupsverslunum, auk þess er hægt að nálgast blaðið í verslunum Húsasmiðjunnar, í Kringlunni, á sjúkrahúsum, elliheimilum og í sundlaugum,“ segir Guðmundur. Samtals fari nú 25 þúsund eintök á þetta svæði. Í næstu viku verði blaðinu dreift í alls 45 þúsund eintökum daglega.

„Þá bætist Smáralind við, Múlakaffi, World Class, Bakarameistarinn og fleiri veitingastaðir. Á landsbyggðinni dreifum við nú tíu þúsund blöðum,“ segir Guðmundur Örn. Á Suðurnesjum sé blaðið í verslunum í Reykjanesbæ, Grindavík, Vogum, Sandgerði og í Garði.

„Blaðinu er einnig dreift í Hveragerði og á Selfossi og eftir helgi bætast við Þorlákshöfn, Hella og Hvolsvöllur. Við dreifum nú einnig í verslunum á Akranesi, Borgarnesi, Blönduósi, í Staðarskála og í Varmahlíð og á Akureyri í gegnum verslanir Bónuss og Nettó ásamt N1 og Olís,“ segir Guðmundur.

Einnig má lesa Fréttablaðið á frettabladid.is og á Fréttablaðs-appinu. Þess utan er hægt að fá blaðið sent að morgni í tölvupósti.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segist þakklátur tryggum lesendum sem hafi spurst fyrir um dreifingu blaðsins.

„Við vinnum hörðum höndum að því að byggja upp þessar nýju leiðir til að koma blaðinu til lesenda og þiggjum allar ábendingar þeirra,“ segir Sigmundur Ernir.