Fjölmiðillinn Kjarninn neyddist til að eyða út frétt af miðlinum sem og deilingum hennar á samfélagsmiðlum vegna mikilla persónuárása, rasisma og hatursorðræðu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, sem birtist á samfélagsmiðlum fréttamiðilsins.

Síðastliðinn föstudag birti Kjarninn viðtal við varaþingkonuna Lenya Rún Taha Karim sem ber yfirskriftina Íhugaði að skila inn kjörbréfinu vegna persónuárása. Í því er meðal annars fjallað um hatursorðræðu sem Lenya hefur upplifað vegna uppruna síns.

„Ömurleg ummæli sem mig setti hreinlega hljóðan við að lesa“

Í yfirlýsingu Kjarnans er tekið fram að úr stærri viðtölum miðilsins séu gjarnan unnar ein til tvær fréttir, og það hafi verið tilfellið í umræddu tilfelli. Svo virðist sem ein slík frétt hafi vakið upp ansi óviðeigandi viðbrögð á samfélagsmiðlum.

„Þegar hluti af viðtalinu var tekinn úr stærra samhengi í frétt urðu til viðbrögð á samfélagsmiðlum sem ég, sem ábyrgðarmaður alls efnis sem birtist á Kjarnanum, sá ekki fyrir. Viðbrögð sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem persónuárásum, rasisma og hatursorðræðu. Ömurleg ummæli sem mig setti hreinlega hljóðan við að lesa.“ segir í yfirlýsingunni.

Þórður segir að þar með hafi frétt úr viðtalinu verið farin að framkalla það sem viðtalið var að gagnrýna.

„Með því bjó ég til aðstæður gagnvart viðmælanda sem treysti okkur fyrir sögu sinni sem létu hana verða fyrir því sem hún var að gagnrýna. Það er ekki í lagi.“ segir hann og segir að brugðist hafi verið við því að eyða út þeim ummælum sem þóttu ömurlegust og loka á möguleikann að skrifa ný ummæli. Í yfirlýsingunni segir að í dag hafi þó orðið ljóst að það væri ekki nóg.

„Síðdegis í dag var ljóst að það dugði ekki til. Því tók ég þá ákvörðun að eyða út deilingum fréttarinnar og taka hana úr birtingu.“ segir Þórður og bætir við „En það er ljóst að hér á landi er ansi margt fólk sem þarf verulega að hugsa sinn gang.“