Ríkislögreglustjóri hafnar því að bílamiðstöð embættisins hafi oftekið gjald af lögregluembættum um hundruði milljóna, eins og greint var frá í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu. Í tilkynningunni segir að tölurnar í frétt RÚV séu algerlega úr lausu lofti gripnar og eigi sér enga stoð.

Leiðrétta aðdraganda stjórnsýsluúttektar

Í umræddri frétt Rúv sagði að ákvörðun hefði verið tekin um að rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra yrði hætt um áramót og að dómsmálaráðuneytið hefði óskað eftir því við ríkisendurskoðun að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra.

Í tilkynningu ríkislögreglustjóra er lýst öðrum aðdraganda að umræddri úttekt.

„Embætti ríkislögreglustjóra vill koma því á framfæri vegna fréttar RÚV frá því í kvöld að þann 5. júní sl. óskaði ríkislögreglustjóri eftir því við Ríkisendurskoðanda að gerð yrði úttekt á rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra með sérstakri vísan í þær breytingar sem áttu sér stað á reikningsskilum opinberra aðila með nýjum lögum um opinber fjármál.

Þá ber að benda á að á fundi ríkislögreglustjóra með lögreglustjórum þann 7. júní sl. var það sameiginleg niðurstaða aðila að núverandi fyrirkomulag bílamála lögreglunnar hafi runnið sitt skeið á enda," segir í tilkynningu embættisins og svo er vísað í frétt RÚV.

„Frétt RÚV er því byggð á sérkennilegum misskilningi í ljósi þess að ofangreint kemur fram á vef ríkisútvarpsins og setur þannig “frétt” kvöldsins í furðulegt ljós.“

Með tilkynningunni fylgir fréttatilkynning embættisins frá því 6. júní síðastliðinn með fyrirsögninni: Ríkislögreglustjóri fer fram á stjórnsýsluendurskoðun.

Fréttatilkynning embættisins frá 6. júní:

Ríkislögreglustjóri óskaði í gær eftir því við ríkisendurskoðanda að fram fari stjórnsýsluendurskoðun á rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sem á og rekur ökutæki lögreglunnar í landinu. Samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda felur stjórnsýsluendurskoðun í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með.

Markmið endurskoðunarinnar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Þá skal einnig líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti.

Jafnframt óskaði ríkislögreglustjóri sérstaklega eftir því að skoðað verði hvaða áhrif framkvæmd laga um opinber fjármál nr. 123/2015 hefur haft á rekstur og endurnýjun ökutækja lögreglu. Þá er óskað eftir því að skoðaðar verði heimildir lögreglunnar til þess að taka á leigu bílaleigubifreiðar til notkunar, auðkenna sem lögreglubifreiðar og skrá til neyðaraksturs.

Óánægja lengi kraumað um bílamiðstöðina

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í vor að mikillar óánægju gætti hjá lögregluumdæmum landsins með rekstur Bílamiðstöðvarinnar sem hefur verið starfrækt hjá Ríkislögreglustjóra frá aldamótum.

Markmið reksturs hennar var aukin hagkvæmni með sameiginlegum rekstri bílaflota allra lögregluumdæma landsins. Það markmið mun hafa snúist upp í andhverfu sína og leiguverðið sem embættin greiða fyrir bílana hefur hækkað svo úr hófi að ekkert samræmi sé lengur á milli raun- og rekstrarkostnaðar og fjárhæðanna sem renni til Bílamiðstöðvarinnar frá lögregluembættunum.