Framkvæmdir við Fossvogsskóla eru hafnar á ný og er markmið þeirra að leita uppi öll svæði þar sem loftgæði eru óheilnæm. Líkt og Fréttablaðið greindi frá í vor kvörtuðu nemendur áfram undan einkennum myglu þrátt fyrir miklar framkvæmdir í fyrra.

Á meðan beðið var eftir framkvæmdum var komið fyrir sex lofthreinsitækjum í skólanum.

„Tækin halda niðri myglumengun að vissu marki þannig að fólk geti verið áfram í húsnæðinu,“ segir Vilmundur Sigurðsson hjá Tækniþjónustu Suðurlands. Tækin sem um ræðir heita IQAir HealthPro 250 og eru keypt inn frá Þýskalandi. „Þau keyra í gegnum sig loftið í rýminu aftur og aftur og sía út þannig alla mögulega loftmengun innandyra. Þetta virkar upp að ákveðnu marki, það má ekki vera of mikil mygla og þetta kemur ekki í staðinn fyrir viðgerðir. En í tilfelli Fossvogsskóla gátu skólastjórnendur klárað skólastarfið og nemendur hættu að finna fyrir slæmum loftgæðum innandyra.“

Skólaslit voru fyrr í þessum mánuði. Fram kemur í bréfi skólastjórnenda til foreldra nemenda við skólann að verkfræðistofan Verkís hafi aftur verið fengin til að taka sýni á þeim stöðum í skólanum þar sem starfsfólk og foreldrar hafa bent á að geti verið óheilnæm. Mun verkfræðistofan í kjölfarið leggja fram ráðleggingar um framkvæmdir. Eru vonir bundnar við að framkvæmdum ljúki í haust.

SAXoPicture-0AB0C2F8-651370350.jpg

Sex lofthreinsitækjum var komið fyrir í skólanum.

Hreinsitækin hafa verið sett upp í fleiri skólum. Vilmundur bindur vonir við að stjórnendur opni augun fyrir þessum möguleika. „Við erum að breyta þessum hugsunargangi að þessi mengun sé raunveruleg. Það á heldur ekki að fara strax í að rífa niður veggi, með þessu er hægt að kaupa sér tíma og fara með minnstum kostnaði í framkvæmdir,“ segir Vilmundur.

Tækin sem notuð eru í skólum og fyrirtækjum eru stærri en þau sem notuð eru í heimahúsum og ná að hreinsa loft á allt að 100 fermetrum. Líkir Vilmundur þeim við vélmennið R2-D2 úr Stjörnustríði. „Það dregur inn í sig loft að neðan, í miðjunni er mótor, loftið fer í gengum síurnar og svo blæs loftið út að ofanverðu. Það verða loftskipti í rýminu allt að fjórum sinnum á klukkutíma.“