Útgöngusamningi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, verður hvorki útbýtt til þingmanna né lagður fyrir neðri málstofu breska þingsins fyrr en snemma júnímánaðar. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið.

Talsverð pressa hefur verið lögð á May að segja af sér en hún boðaði nýverið atkvæðagreiðslu í enn eitt skiptið í neðri málstofu breska þingsins. Samningur hennar hefur verið felldur í þinginu þrívegis.

May hafði gefið það út að þingmenn fengju afrit af samningnum á morgun, föstudag, en ljóst er að biðin verður lengri. Mikill styr hefur staðið um May og stöðu hennar í Downingstræti 10 undanfarna mánuði.

Enn eitt áfallið dundi yfir forsætisráðherranum í gær þegar Andrea Leadsom, ráðherra og leiðtogi þingflokks Íhaldsflokksins, sagði af sér embætti vegna óánægju með störf May.

Útgöngu Breta hefur verið frestað þar til 1. október næstkomandi sem þýðir að þeir munu taka þátt í Evrópuþingskosningunum sem fram fara þessa dagana. Áður hafði staðið til að Bretar yfirgæfu sambandið 29. mars en útgöngunni var frestað þar sem samningar um framtíðarsamband þeirra og ESB höfðu ekki náðst.