Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, hefur ákveðið að frestar frumvarpi sínu um útlendinga fram á næsta haust.

Frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt af stjórnarandstöðunni sem og almenningi.

Mikil ánægja ríkir meðal stjórnarandstöðunnar um ákvörðun Jóns en Helga Vala Helgadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir þetta gleðifréttir í nýrri færslu á Facebook-síðu sinni.

Ákvörðunin komi í kjölfar tillagna þriggja stjórnarandstöðuflokka, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, um breytingar á frumvarpinu sem feli í sér réttarbætur fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk í samræmi við athugasemdir Rauða krossins.

Helga Vala segir tillögurnar jafnframt fela í sér nýja nálgun á afgreiðslu mála sem að mati flokkanna þriggja feli í sér verulega aukna skilvirkni, án þess að skerða réttindi fólks á flótta.

„Við erum mjög stolt af þeim tillögum sem við lögðum fram og teljum að þær geti verið gott veganesti inn í áframhaldandi vinnu við heildarendurskoðun á útlendingamálum. Skerðing réttinda fólks á flótta er ekki svarið við kerfislægum vandamálum,“ segir Helga Vala að lokum í færslu sinni.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, er ekki síður ánægður með fréttirnar: „Verulega ánægjulegt að samstarf Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins hafi orðið til þess að stöðva þetta vonda útlendingafrumvarp ríkisstjórnarinnar.“

Sigmar tjáir sig um málið á Facebook-síðu sinni en hann segir miklar skerðingar á mannréttindum fólks á flótta hafi verið í frumvarpinu, „og frumvarpinu var algerlega slátrað af mannréttinda og mannúðarsamtökum við meðferð málsins í Allsherjar og menntamálanefnd. Tel það ólíklegt að VG og Framókn séu svo skyni skroppin að leggja aftur í þennan leiðangur í haust.“