Evrópusambandið undirbýr nú að fresta útgöngu Breta úr sambandinu þar til í júlí eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að ólíklegt sé að forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, nái að koma Brexit-samkomulaginu í gegnum breska þingið.

Samkvæmt frétt á breska miðlinum Guardian þykir embættismönnum í Brussel ólíklegt að það náist að klára alla samninga fyrir áætlaðan útgöngudag, þann 29. mars á þessu ári og er fastlega búist við því að beðið verði um frest.

Eftir að beiðni um frest hefur borist sambandinu mun forseti Evrópuráðsins, Donald Tusk, kalla leiðtoga saman á fund. Lengd frestsins fer eftir ástæðum May í beiðni sinni um frest.

Reyna að sannfæra þingmenn að samþykkja Brexit-samninginn

Greint var frá því fyrr í dag ráðherrar í ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, rói nú að því öllum árum að sannfæra þingmenn breska þingsins um að samþykkja Brexit samning ríkisstjórnarinnar en atkvæðagreiðsla um samninginn fer líklega fram næsta þriðjudag.

May skrifaði pistil í dagblaðið Sunday Express fyrr í dag þar sem hún hvatti þingmenn til þess að kjósa Brexit samninginn sinn og sagði annað „ófyrirgefanleg svik gegn trausti á lýðræðinu.“ 

Sjá einnig: Breskir ráð­herrar biðla til þing­manna um að sam­þykkja Brexit

Greint er frá á Guardian.