Framlög til landhelgisgæslunnar lækka um 2,2 milljarða vegna frestunar á fjárfestingarframlögum til að mæta kaupum á þremur nýjum þyrlum fyrir landhelgisgæsluna. Í staðinn fær landhelgisgæslan 350 milljóna framlag til að standa undir leigu á viðbótarþyrlu sambærilegri þeim sem fyrirhugað var að kaupa en nú hefur verið frestað. Þá koma inn 50 milljónir til að mæta auknum leigugreiðslum vegna uppbyggingar á nýju flugskýli.

Heildarfjárheimild til löggæslu hækkar um 1,2 milljarða á næsta ári. Af auknum fjármunum fara 490 milljónir til uppbyggingar innviða, sem er hluti hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Í fyrsta lagi er um að ræða 300 milljóna framlag til að mæta undirbúningskostnaði við byggingu samhæfingarmiðstöðvar fyrir alla viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu.

Í öðru lagi 150 milljóna framlag til eflingar björgunarskipaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar og í þriðja lagi er 40 milljóna tímabundið framlag til tveggja ára til að mæta óveðurstengdum verkefnum til styrkingar stjórnunar og samhæfingar innviða á vegum almannavarna.

Efla á landamæravörslu

Samkvæmt nýkynntri fjármálaáætlun er stefnt að því að efla löggæslu enn frekar „meðal annars með því að leggja meiri áherslu á meðferð ofbeldisbrota, skipulagða glæpastarfsemi og almenna löggæslu, t.d. með því að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Þá er allt kapp lagt á að efla landamæravörslu sem er sívaxandi hluti löggæslu og mikilvægur þáttur í öryggismálum þjóðarinnar.“