„Við ákváðum að fresta, því við vitum ekki hvernig þingflokkurinn lítur út eða hverjir eru í honum. Þetta er ómöguleg staða og leiðinlegt að þurfa að standa í þessu,“ segir Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata um stöðuna sem uppi er.
Nýir þingflokkar Samfylkingarinnar og Pírata höfðu boðað þingflokksfundi klukkan eitt í dag en ákváðu að fresta þeim vegna óvissunnar sem uppi er um stöðu jöfnunarþingmanna. Landskjörstjórn fundar núna og mun tilkynna eftir fundinn
Niðurstaðan verði að kosið verði aftur
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir fundi Samfylkingarinnar einnig slegið á frest vegna stöðunnar þegar kemur að endurtalningu atkvæða.
„Þetta er ákveðið grundvallarafstaða sem að flokkarnir þurfa að taka,“ segir Logi.
Hann segir að það eigi ekki að gefa neinn afslátt af framgangi kosninga og furðar sig á orðum formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi um að hann hafi ekki farið eftir lögum, heldur „hefð“.
„Kosningalögin eru þannig að þau eru beinlínis mjög takmarkandi varðandi eitthvað svigrúm. Það er beinlínis talað um hvernig hlutirnir eiga að vera og allt talið upp sem hlýtur að þýða að það verði að fara eftir bókstafnum,“ segir Logi og bætir við:
„Ég held að niðurstaðan verði að vera sú að það verði kosið aftur þarna. Það hefur sína ókosti en er kannski það eina rétt. En það er ekki hægt að sópa þessa undir teppið og segja að við lögum þetta næst.“

Komin aftur eftir tíu ára hlé
Þórunn Sveinbjarnardóttir kom í þinghúsið um hálf eitt leytið en hún kemur nú aftur til þingstarfa eftir tíu ára hlé:
„Þetta er ný byrjun og nýtt upphaf,“ segir Þórunn.
Hún segir að það séu allir að hugsa um næstu skref núna og að fólk sjái ýmislegt fyrir sér en fyrst verði að athuga hvort að ríkisstjórnarflokkarnir þrír komist að einhverri niðurstöðu.
„Við erum að fara að hittast í fyrsta sinn og fara yfir stöðuna,“ segir Þórunn.
Hún segir að eitt og annað varðandi kosningarnar sé í uppnámi, eins og talning atkvæða.
Ég er að segja að við þurfum kannski að horfast í augu við það að við erum ekki best í öllu
„Það er búið að færast á milli Reykjavíkurkjördæmanna eitt sæti þannig þetta hefur veruleg áhrif og er með hreinum ólíkindum að þetta gerist,“ segir Þórunn.
Hún segir mikilvægt að farið sé að öllum reglum og segir mögulega vera tilefni til að þiggja ráðleggingar utan að frá, eins og frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
Að kalla einhvern til núna?
„Nei, ég er ekki að segja það. Ég er að segja að við þurfum kannski að horfast í augu við það að við erum ekki best í öllu.“
Kosningavakan enn í gangi
Jóhann Páll Jóhannsson er inni sem þingmaður eins og staðan er núna, en er eðli málsins samkvæmt óöruggur með sína stöðu.
„Kosningavakan stendur bara enn og við þurfum að láta þetta ráðast og spyrja að leikslokum,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, nýr þingmaður Samfylkingarinnar, ef talning atkvæða helst óbreytt.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar ráða ráðum sínum
Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun, munu formenn ríkisstjórnarflokkanna ráða ráðum sínum í dag. Þingflokkur Vinstri grænna hélt sinn fyrsta þingflokksfund í gær, en Sjálfstæðismenn funduðu í þinghúsinu fyrir hádegið í dag. Fundur Framsóknarmanna verður svo klukkan fjögur í dag.