Skorsteinn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi verður ekki felldur á morgun líkt og til stóð. Fresta þurfti falli turnsins um sólarhrings vegna veðurs og verður hann því felldur, að öllu óbreyttu, á föstudaginn klukkan korter yfir tólf. 

Gul viðvörun er í gildi í Breiðafirði, á Vestfjörðum, á Ströndum og Norðurlandi eystra í dag og fram undir morgun. 

Skorsteinninn verður felldur í tveimur hlutum, efri hlutinn kemur til með að falla í suðaustur, en neðri hlutinn í suðvestur. Íbúar í húsum á ákveðnu svæði þurfa að yfirgefa heimili sín meðan turninn er felldur.

Rétt fyrir fellingu verður gefið hljóðmerki, sem er aðvörun um upphaf aðgerðarinnar. Þegar felling er yfirstaðin verður gefið hljóðmerki að nýju sem merki um að hættan sé liðin hjá. Öryggissvæði við fellingu er hringur í 160 m fjarlægð umhverfis skorsteininn. Innan þessa svæðis má engin manneskja vera óvarin.