Alls eru nú 47 einstaklingar í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði og á Litla-Hrauni. Í tilkynningu frá Fangelsismálastofnun í dag kom fram að verulegt álag sé í fangelsum landsins.
„Við getum ekki stýrt flæði gæsluvarðhaldsfanga inn í fangelsin. Þegar lögregla klárar sína vinnu og einstaklingur er úrskurðaður í gæsluvarðhald þá ber okkur að taka við þeim. Almennt er þetta um 15 til 20 manns en nú ber svo við að það hafa verið mörg stór mál. Manndrápsmál, ofbeldismál og mörg fíkniefnamál á Suðurnesjum. Þetta er fljótt að hafa áhrif,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.
Alls getur fangelsið á Hólmsheiði tekið við 52 föngum og því hefur hluti þeirra sem er í gæsluvarðhaldi verið fluttur á Litla-Hraun.
„Það eykur álagið því þetta getur gerst ansi hratt. Við höfum flutt hluta á Litla-Hraun því fangelsið á Hólmsheiði hefur þríþætt hlutverk. Það er gæsluvarðhaldsfangelsi, móttökufangelsi og er langtímavistun fyrir konur og því hafa þeir sem eru í lausagæslu verið fluttir á Litla-Hraun.“
Minna svigrúm og meira ofbeldi
Páll segir að hluti einstaklinganna séu úrskurðuð í styttri tíma í varðhald svo það losni eitthvað þegar þeim lýkur.
„En þetta er aukning sem við höfum ekki séð áður,“ segir Páll og að á sama tíma og þetta sé staðan þá sé minna svigrúm til að boða fólk í afplánun og því muni koma til þess að það verði að fresta afplánun hjá einhverjum.
Hann segir að nýting innan fangelsanna sé umfram áætlanir og fjármagn. „Þetta er bagalegt fyrir okkur.“
Auknum fjölda fanga fylgir aukið álag á fangaverði. Þá hafa verið fleiri líkamsárásir á fangaverði sem hafa leitt til langvarandi veikinda auk þess sem fangaverðir hafa haldlagt heimatilbúin eggvopn í auknum mæli.
„Starf fangavarða hefur á undanförnum misserum breyst. Þetta er erfitt starf sem samsvarar algerlega starfi lögreglumanna og ég vona að það verði horft til þess þegar virði starfa þeirra verður metið í komandi kjarasamningum,“ segir Páll og að fangaverðir skynji einnig aukna hörku og ofbeldi sem lögreglan merkir á götunni.
„Þetta kemur að enda inn í fangelsin og gerir það núna,“ segir Páll.