Alls eru nú 47 ein­staklingar í gæslu­varð­haldi í fangelsinu á Hólms­heiði og á Litla-Hrauni. Í til­kynningu frá Fangelsis­mála­stofnun í dag kom fram að veru­legt álag sé í fangelsum landsins.

„Við getum ekki stýrt flæði gæslu­varð­halds­fanga inn í fangelsin. Þegar lög­regla klárar sína vinnu og ein­stak­lingur er úr­skurðaður í gæslu­varð­hald þá ber okkur að taka við þeim. Al­mennt er þetta um 15 til 20 manns en nú ber svo við að það hafa verið mörg stór mál. Mann­dráps­mál, of­beldis­mál og mörg fíkni­efna­mál á Suður­nesjum. Þetta er fljótt að hafa á­hrif,“ segir Páll Win­kel, fangelsis­mála­stjóri.

Alls getur fangelsið á Hólms­heiði tekið við 52 föngum og því hefur hluti þeirra sem er í gæslu­varð­haldi verið fluttur á Litla-Hraun.

„Það eykur á­lagið því þetta getur gerst ansi hratt. Við höfum flutt hluta á Litla-Hraun því fangelsið á Hólms­heiði hefur þrí­þætt hlut­verk. Það er gæslu­varð­halds­fangelsi, mót­töku­fangelsi og er lang­tíma­vistun fyrir konur og því hafa þeir sem eru í lausa­gæslu verið fluttir á Litla-Hraun.“

Minna svigrúm og meira ofbeldi

Páll segir að hluti ein­stak­linganna séu úr­skurðuð í styttri tíma í varð­hald svo það losni eitthvað þegar þeim lýkur.

„En þetta er aukning sem við höfum ekki séð áður,“ segir Páll og að á sama tíma og þetta sé staðan þá sé minna svig­rúm til að boða fólk í af­plánun og því muni koma til þess að það verði að fresta af­plánun hjá ein­hverjum.

Hann segir að nýting innan fangelsanna sé um­fram á­ætlanir og fjár­magn. „Þetta er baga­legt fyrir okkur.“

Auknum fjölda fanga fylgir aukið álag á fanga­verði. Þá hafa verið fleiri líkams­á­rásir á fanga­verði sem hafa leitt til lang­varandi veikinda auk þess sem fanga­verðir hafa hald­lagt heima­til­búin egg­vopn í auknum mæli.

„Starf fanga­varða hefur á undan­förnum misserum breyst. Þetta er erfitt starf sem sam­svarar al­ger­lega starfi lög­reglu­manna og ég vona að það verði horft til þess þegar virði starfa þeirra verður metið í komandi kjara­samningum,“ segir Páll og að fanga­verðir skynji einnig aukna hörku og of­beldi sem lög­reglan merkir á götunni.

„Þetta kemur að enda inn í fangelsin og gerir það núna,“ segir Páll.