Fresta þarf rúmlega sjö skurðaðgerðum á dag í Orkuhúsinu á meðan starfsfólk fer til vinnu á Landspítalanum. Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Læknastöðvarinnar í Orkuhúsinu, segir að þaðan hafi farið tveir hjúkrunarfræðingar og einn svæfingalæknir yfir á Landspítalann. Munu þau starfa þar í tvær vikur hið minnsta.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í síðustu viku að starfsfólki einkaaðila í heilbrigðisþjónustu sé ætlað að manna vaktir á gjörgæslu og létta álagi á starfsfólki spítalans. Landspítalinn er nú á hættustigi, en nú eru sex á gjörgæslu vegna Covid-19.

Dagný segir að biðlistar muni eitthvað lengjast á meðan starfsfólkið er á Landspítalanum. „Við erum að færa til sjúklinga sem áttu aðgerðir yfir á aðra tíma,“ segir hún.
„Núna er sumarfríi að ljúka og þá erum við að gera aðgerðirnar sem liggur hvað mest á. Þetta er allt gert með góðum fyrirvara þannig að raskið verði hvað minnst fyrir þá. En við erum að gera okkar til að hjálpa til, það verða allir að hjálpast að. Þetta sýnir bara hvernig við getum unnið saman.“